Besta bókakápan

Fréttatíminn birti úttekt sérfræðinga á bestu og verstu bókakápum þessa árs í síðasta tölublaði.  Besta kápan að þeirra mati er sú sem einnig ber einn af lengstu titlum ársins: Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson.  Um hana segir Stefán Snær Grétarsson, teiknistofustjóri á Fíton: „Þessi kápa lýsir glimrandi sjálfstrausti og kallar á að bókin verði lesin. Til þess eru bókarkápur.“ Kápuna gerir Sigrún Pálsdóttir, eiginkona Braga, en naut aðstoðar Egils Baldurssonar hönnuðar við frágang. Rithöndina framan á bókinni á enginn annar en Einar Örn Benediktsson, félagi Braga úr Sykurmolunum.

Goddur (Guðmundur Oddur Magnússon) sagði þetta um kápuna: „Ég er hrifinn af ákveðinni tegund af kæruleysi. Það gengur ekki alltaf og ekki sama hvernig það er gert. Á bók Braga gengur þetta mjög vel. Ég held að ég hafi tekið fyrst eftir þessari tegund hönnunar hjá Frank Zappa – á hvítu Fillmore East tónleikaplötunni.“

Sigrún gerir jafnframt kápuna á sína eigin bók, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar, en hún er ein af þeim kápum sem átitsgjafarnir nefna sérstaklega fyrir góða hönnun. Kápurnar á bókum Braga eftir Sigrúnu hafa áður hlotið eftirtekt og aðdáun. Meðal annars var kápan á síðustu skáldsögu hans,Sendiherranum, valin kápa ársins árið 2006.

(byggt á frétt á vef Forlagsins)

Leave a Reply