Gullfoss: önnur tilraunGullfoss: önnur tilraun

Í fyrstu ljóðabók Braga, Dragsúgi, birtist ljóð um Dettifoss, það er að segja vatnsfallið, ekki skipið, sem höfundurinn tileinkaði vini sínum Einari Erni Benediktssyni. Dragsúgur kom út árið 1986, og birtist því ljóðið áttatíu árum eftir að nafni Einars Arnar, skáldið Einar Benediktsson, birti sitt ljóð um Dettifoss í bókinni Hafblik. Tuttugu og tveimur árum eftir útgáfu Dragsúgs orti Bragi ljóð um annan foss, Gullfoss, sem hann birti í tímaritinu Stínu. Hann hefur hins vegar nýlega gert breytingar á því ljóði, vegna óánægju með hvernig til tókst í upphafi, og hér, á heimasíðu Braga, birtist ljóðið í sinni nýju mynd.

GULLFOSS

hugsað til tékkneska skáldsins Vitezslavs Nezval

Ég stend fyrir framan þessa tignarlegu mynd. Ég er fimm ára. Það er afmæli. Það er afmæli frænda míns. Við stöndum sitthvorum megin við ömmu okkar, ég og bróðir minn. Frændinn er ekki mættur – það hefur eitthvað gerst innan fjölskyldunnar sem hefur orðið til þess að frændinn kemur ekki. Foreldrar okkar bræðranna eru á Kanaríeyjum. Við erum nýkomnir inn í stofu, eftir að hafa setið í eldhúsinu með hundinum hennar ömmu, og horft á bjúgun á disknum á eldhúsborðinu, sem amma hafði raðað á diskinn eins og þau væru saltstangir. Við erum á heimili ömmu. Við stöndum fyrir framan þessa tignarlegu mynd af fossinum, og þegar sambýlismaður ömmu stingur innstungunni á enda rafmagnssnúrunnar í vegginn, kviknar ljós bakvið fossinn, og eitthvað fær vatnið til að falla ofan af fossbrúninni. Svo rís sambýlismaður ömmu upp af hnjánum. Og hann stynur eða andvarpar, líkt og það hafi kostað hann töluvert erfiði að fá vatnið til að falla ofan af brúninni.

Ég er fimm ára. Mér verður hugsað til handanna í ljóðinu eftir Vitezslav Nezval; handanna á klukkunni í gamla gyðingahverfinu, þeirra sem færa tímann aftur en ekki fram. Ekkert kemur mér lengur á óvart, ekki einu sinni dauðinn í ljóði Nezvals.

Leave a Reply