12. desember 2015

Laugardagur er ekki verri en hver annar dagur til að leiðrétta það sem sagt var á föstudegi. Mér varð nefnilega á að segja (lesist: skrifa) í gær að franska skáldið Max Jacob hefði snúist til kaþólskrar trúar á sínum efri árum. Það er bara einfaldlega ekki rétt. Max Jacob varð aldrei neitt sérlega gamall – ekki nema 68 ára þegar hann lét lífið í útrýmingarbúðum nasista í Drancy – en hann var tiltölulega ungur maður þegar hann tók kaþólska trú (í skiptum fyrir gyðingdóminn); hann var um fertugt. Það tók hann reyndar sex ár að taka þá ákvörðun, því sex ár liðu frá því að Kristur birtist honum óvænt í kvikmyndahúsi og þangað til Max skipti um trú; og það var einmitt sýnin í bíósalnum, að sögn Max, sem olli trúskiptunum. Þannig að hann hefur gert þetta af yfirlögðu ráði. Nú ætla ég ekki að dæma um hvort ég sjálfur geri hlutina af yfirlögðu ráði almennt; ég hallast svona frekar að hinu gagnstæða; mér finnst ég aftur á móti skulda Max eitthvað fyrir að láta út úr mér þessa vitleysu um aldur hans við trúskiptin. Og til að bæta honum þetta upp (lesist: til að mér líði betur), þá ætla ég að birta hér annað ljóð eftir hann, ljóð sem kemur í beinu framhaldi af því sem ég birti í gær, en það nefndist Bókmenntalegir mannasiðir I. Framhaldsljóðið birtist líka í tímariti Bjarts og frú Emilíu árið 1993 (í þeirri íslensku mynd sem það birtist hér); það heitir einfaldlega Bókmenntalegir mannasiðir II: Kaupsýslumaður nokkur frá Havana hafði sent mér vindil vafinn í gull sem þegar hafði verið reyktur svolítið. Skáldin sem sátu við borðið með mér héldu því fram að hann hefði verið að grínast með mig, en Kínverjinn gamli sem hafði boðið okkur heim til sín sagði þetta vera gamlan sið í Havana og tákn um mikla virðingu. Þá sýndi ég þeim tvö stórkostleg kvæði sem einn lærður vinur minn hafði þýtt og skrifað fyrir mig á pappírssnepil eftir að ég hreifst af þeim í upplestri hans. Skáldin sögðu þessi kvæði vera vel þekkt og einskis virði. En Kínverjinn gamli sagði það ekki mögulegt, þau væru aðeins til í einu handskrifuðu eintaki á palímáli, máli sem enginn þeirra væri kunnugur. Þá litu skáldin hvert á annað og sprungu úr hlátri eins og smákrakkar og Kínverjinn gamli horfði á okkur dapur.