15. desember 2015

Það gerist að jólastemmningin kemur of fljótt. Áður fyrr nægði mér oft að bíta í rautt epli snemma í nóvember til að ganga of fljótt á þessa stemmningu sem með réttu ætti að ná hámarki í lok desember, en náði stundum – þá er ég hafði bitið í eplið of snemma – að klárast um miðjan desember. Núna á seinni árum, þegar ég hef ferðast meira um landið en áður fyrr, hafa heimsóknir í Jólagarðinn í nágrenni Akureyrar, í júní eða júlí, gegnt sama hlutverki og ótímabæra eplið. En það þarf samt ekki að vera eitthvað neikvætt. Það er vel þess virði að fara í Jólagarðinn á miðju sumri, því í raun eru þau innlit einhver skrítnasta, jafnvel kynlegasta, reynsla sem maður verður fyrir. Eitthvað virkilega unheimlich. Í jákvæðum skilningi, og uppbyggilegum. Það er reyndar mjög vel við hæfi að grípa til þýsks orðs í þessu sambandi, því flestar jólavörurnar í Jólagarðinum virðast koma frá Þýskalandi. Og talandi um eitthvað þýskt – og gott. Fyrir hver jól verður mér hugsað til hinnar stórkostlegu smásögu Heinrichs Böll um ömmuna á eftirstríðsárunum í Þýskalandi; þá sem hélt allri fjölskyldunni í heljargreipum jólahalds allan ársins hring; sem í lok hátíðarinnar tók að æpa í mótmælaskyni þegar taka átti tréð í stofunni niður, og skreytingarnar, og fékk því framgengt næstu árin að jólahaldið héldi áfram, að aldrei yrði dauður punktur í gleðinni. Það er auðvitað við hæfi að rifja upp þessa mögnuðu sögu núna, þegar ekki eru nema níu dagar til jóla. En nú að jólatónlistinni. Og ekki-jólatónlistinni. Það er nefnilega kominn tími til að hafa einhverja tónlist hérna. Og ég held það hljóti að vera gott ráð (ef ekki beinlínis í anda þeirra ráða sem Óskar Árni Óskarsson hefur verið að gefa okkur í bókum sínum) að taka inn sem mest af annarri tónlist en jólatónlist áður en tími hennar, jólatónlistarinnar, brestur á af fullum þunga. Og þá er Anton Webern nákvæmlega það sem hentar: a good choice, eins og sagt er á ensku. Það er engu líkara en Glenn Gould sé staddur á himnum þegar hann spilar þetta; að hann hafi tekið með sér píanóið.