16. desember 2015

Góður vinur minn á það til að bera ýmislegt bóka- eða blaðakyns inn á heimilið. Um daginn kom hann með nýjasta tölublað bókmenntatímaritsins Skjaldar. Í því tölublaði er að finna 84 ára gamlan pistil eftir Tómas Guðmundsson skáld, sem upphaflega birtist í Stúdentablaðinu. Pistillinn nefnist Eftir kl. 10 á kvöldin. Ég get ekki stillt mig um að birta fyrstu málsgrein textans (sem lýkur um leið og skáletrið hættir), bara rétt til að kveikja í þeim sem gætu hugsað sér að lesa áfram: Vinur minn hefur sagt mér frá manni vestur í bæ sem alltaf er farinn að hátta kl. 10 á kvöldin. Oft hef ég hugsað um það hvernig heimurinn muni líta út í höfði slíks manns og talsvert myndi ég vilja á mig leggja til að öðlast þekkingu á sálarástandi hans og lífsskoðunum ef þess væri kostur, en þar sem reynsla mín er sú að engum manni sé unnt að kynnast til hlítar fyrri en eftir kl. 10 á kvöldin, þá segir sig sjálft að þetta getur ekki orðið. Og svo framvegis. En fyrst hér er á annað borð minnst á vini (fyrst þann sem kom með Skjöld inn á heimilið, síðan vin Tómasar sem segir honum frá kl. 10-manninum), þá er ekki úr vegi að bæta þriðja vininum við, þótt sá vinur flokkist fremur í huga mér sem kunningi en vinur. Á þennan mann hefur verið minnst á áður; þetta er hinn nafnlausi höfundur frá 14. desember sem hafði áhyggjur af því að honum tækist ekki að hemja þá löngun sína að láta hafa eitthvað eftir sér opinberlega um ástandið í heiminum eða einhvers konar samfélagsmál. Hann hringdi í mig í gærkvöldi. Og hann var ekkert sérlega ánægður. Með mig, það er að segja. „Maður hittir þig á förnum vegi,“ sagði hann, „og fær síðan að lesa um það nokkrum dögum síðar í einhverjum miðli sem allur heimurinn hefur aðgang að.“ „Það les þetta enginn sem ég er að skrifa,“ svaraði ég. „En af hverju ertu þá að birta þetta?“ spurði hann. „Ég er nú meira svona að tala við sjálfan mig, frekar en að tala við aðra,“ sagði ég, og bætti við: „Kannski er þetta eintal sálarinnar, eins og Þórbergur kallaði það.“ Og ég reyndi að sannfæra hann um að enginn færi að velta því fyrir sér hvaða höfundur þetta væri sem ég sagðist hafa hitt um daginn; í fyrsta lagi læsi enginn þessi skrif mín á vefnum, eins og ég hafði þegar sagt honum; í öðru lagi væri hann (höfundurinn áhyggjufulli) ekki svo vel þekktur sem höfundur að einhver færi að brjóta heilann um hver þetta gæti verið sem ég (svona álíka þekktur höfundur og hann) væri að segja frá að ég hefði hitt á förnum vegi. Það væri t.d. annað mál ef X (mjög þekktur höfundur, sem ég læt vera að nefna með nafni) hefði hitt Y (annan álíka þekktan höfund, sem ég nefni ekki heldur, af þeirri ástæðu að þá gæti ég átt von á fleiri símtölum) – ef þessir tveir höfundar, X og Y, hefðu hist á förnum vegi, og annar þeirra (eða jafnvel ég sjálfur) myndi segja frá því á alheimsvefnum, myndu lesendur þeirra (sem ég veit að eru mun fleiri en okkar beggja samanlagðir, mínir og áhyggjufulla höfundarins) virkilega fyllast áhuga; þeir myndu setja af stað einhvers konar rannsókn. En nóg um þetta; þetta leiðir ekki neitt. Núna er ég aftur á móti búinn að nefna bæði Tómas Guðmundsson og Þórberg Þórðarson í sömu færslu; þessa tvo menn sem Matthías Johannessen talaði við og sagði frá í viðtalsbókunum sínum. Og það minnir mig á að mig langar til að lesa nýju bókina sem var að koma út um Þórberg Þórðarson. Ég mæli líka með pistlinum eftir Tómas.