2. desember 2015

Nýjasta bók Michels Houellebecq er alveg milljón, finnst mér. Ég veit þó ekki hvort það tákni að hún sé góð, ég þori ekki að kveða upp úr um það; það eru í henni nokkrar senur sem eru beinlínis vondar. Það sem helst kætti mig við lesturinn, fyrir utan hina „lágstemmdu“ kenningu, eða spádóm, um valdatöku Múslímska bræðralagsins í Frakklandi, var hinn undirliggjandi þráður um rithöfundinn Joris-Karl Huysmans sem Houellebecq spinnur í undirlag sögunnar. François, sögumaður Houellebecqs, er sérfræðingur í verkum hins belgíska Frakka, sem undir lok nítjándu aldar skrifaði bók sem kölluð hefur verið „tíðabók dekadentismans“, og aðra um satanisma, en snerist síðan til kaþólsku, ekki síst fyrir áhrif frá þessum dimmu hugðarefnum sínum, til að fjarlægja sig frá þeim. Sögumanni Houellebecqs, François, verður stöðugt hugsað til hins löngu liðna rithöfundar og þess sem sá maður stóð fyrir (eða stendur fyrir í nútímanum); Huysmans líkt og andar í gegnum hann, ekki síst þegar François veltir fyrir sér spurningum varðandi konur, kynlíf og trúmál. Sumar af þeim vangaveltum eru ískrandi fyndnar og beittar. Ullabjakkur, eins og ég veit að Houellebecq er kallaður á virðulegum bókmenntaheimilum,  hefur í gegnum tíðina verið fremur örlátur á sína eigin mynd gagnvart ljósmyndurum, og það er ekki leiðinlegt að hafa þá mynd í huga þegar maður les þessa bók; hingað til hefur ásjóna Houellebecqs alltaf minnt mig á Baudelaire, þótt ef til vill séu þeir ekki beinlínis líkir – það er frekar að maður tengi þá saman andlega – en ég er ekki frá því að í Houellebecq sé líka svolítill Huysmans; ekki í útlínum, en í karakternum: hið fágaða mannhatur og fallega lífsþreyta sem einkennir þessa þrjá menn lætur þá einhvern veginn renna saman í eina mynd. Bókmenntafræðingurinn François er nokkuð örugglega að hluta til byggður á höfundi sínum, maður finnur mjög sterkt fyrir því hversu Houellebecq nýtur þess að gera grín að sjálfum sér; og með það í huga nýtast ljósmyndirnar af honum ekki síður vel sem myndskreyting við texta þessarar bókar. Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af síðustu bók Houellebecqs, þótt hugmyndin á bakvið hana væri flott; en hérna, í þessari nýju, finnst mér hann alveg vera að gera sig.  Ég las bókina á ensku, og held ég muni alveg örugglega lesa hana aftur þegar hún kemur í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar snemma á næsta ári. Ef það er þá rétt að hún geri það. Mér var að minnsta kosti sagt það; það var vinurinn sem leit í heimsókn til mín um daginn sem bjó yfir þeim upplýsingum. Hann, vinurinn, ætlaði sjálfur að bíða með að lesa bókina þangað til hún kæmi á íslensku. Ég varð hins vegar svo spenntur, sérstaklega vegna þess að ég hafði lesið um að Huysmans kæmi fyrir í sögunni, að ég fór strax á Gegni, fann út að bókin væri til í Bókhlöðunni á ensku, og hljóp út. Eintakið var meira að segja ólesið. En núna, þegar ég hef minnst á þennan vin minn (sem ég er alveg viss um að er að lesa þetta), heldur hann ábyggilega að ég ætli að fara að tala eitthvað meira um hann; ég var svona hálfpartinn búinn að lofa því í síðasta kafla. En það ætla ég ekki að gera. Ég ætla aftur á móti að grófþýða nokkrar setningar úr bók Houellebecqs (úr ensku þýðingunni); setningar sem kallast svolítið á við senu sem ég dró sjálfur upp fyrir nokkrum dögum á þessum síðum hér: ég var þá staddur við flugvöllinn í Skerjafirði og hafði hitt vin minn E. Í hinum snöruðu setningum er Huysmans-fræðingurinn François að kveðja fyrrum samstarfsmann sinn, eftir að hafa verið í heimsókn hjá honum; sá maður, Rediger, er innfæddur Frakki, var áður kaþólskur en hefur snúist til íslamstrúar og er giftur að minnsta kosti tveimur konum, einni um fertugt, hinni á táningsaldri: Ég þakkaði honum fyrir hrífandi síðdegisstund, sem hafði síðan orðið að hrífandi kvöldstund. Hann sagðist sjálfur hafa virkilega notið stundarinnar – í stuttu máli sagt vorum við í hálfgerðu kurteisiskasti fyrir utan dyrnar hjá honum; en báðir meintum við hvert orð af því sem við sögðum.