Sögumaður - kápa

31. desember 2015

Nú hef ég lokið við að horfa á kvikmyndina um Jesú, um síðasta hálfa sólarhringinn í lífi hans. Ég horfði á hana um daginn (áður en ég horfði á þáttinn um Adele – eða var það eftir?). Og þá er það frá. Í myndinni var Jesús pískaður svo mikið og laminn, og svo mikið blóð rann úr djúpum skurðum í líkama hans, að mér reiknaðist lauslega til að ég hefði sjálfur dáið sirka þrisvar til fjórum sinnum hefði ég fengið sambærilega meðferð. Ég virkilega fann til með honum, frelsaranum svonefnda; og á löngum kafla í myndinni varð ég beinlínis hann (nei, stopp nú: er hann að líkja sér við Jesú? heyri ég hljóma allt í kringum mig); sú tilfinning náði hámarki þegar hermenn landshöfðingjans höfðu fest hann á krossinn; þegar þeir slengdu honum niður, svo andlitið snerti næstum jörðina, eins og til að sannreyna að hann væri fastur á krossinum. Svo reistu þeir hann við; Jesús dó og myndin fékk fljótlega endi eftir það; og ég fylgdist með nöfnum leikaranna og aðstandenda myndarinnar renna yfir skjáinn. Það var ung kona sem lék djöfulinn (Rosalinda eitthvað), hugsanlega jafngömul leikaranum sem lék Jesú. Ég er sjálfur orðinn tuttugu árum eldri en Jesús á að hafa verið þegar hann dó; og þegar ég hugsa um hvort meðferðin á honum í myndinni hafi virkilega verið raunsæ, hvort sársaukinn sem hann upplifði áður en hann hóf gönguna með krossinn upp á hæðina hefði einn og sér ekki átt að vera nægur til að taka frá honum meðvitundina eða einfaldlega ganga af honum dauðum, hvarflar að mér að ég sé sjálfur orðinn nógu gamall til að finna fyrir hinu og þessu í líkamanum, þótt ekki þurfi maður að lifa við húðstrýkingar. Og í framhaldi af því: hvort ekki sé kominn tími til að trúa á eitthvað; eitthvað til að sefa mann, ef til þess kæmi að engin áþreifanleg meðöl nægðu til að deyfa sársaukann. Bara trúa á eitthvað. Reyndar er það sársaukinn sjálfur sem fyrst sem kemur upp í hugann í því sambandi. Er það ekki einmitt hann sem maður ætti að trúa á? Þegar ég stend upp úr sófanum og slekk á sjónvarpstækinu finn ég líka fyrir einhverju í síðunni, einhverjum óþægindum; og ég hugsa um hversu mikill máttur kvikmyndarinnar sé; ég er ekki fyrr stiginn upp frá áhorfinu þegar sársaukinn segir til sín. En þegar ég nefni þau orð, máttur kvikmyndarinnar, þá er ég ekki 100% viss hvort ég eigi við þessa tilteknu mynd eftir Mel Gibson, eða kvikmyndir almennt. Kannski Three Amigos líka? Dagbók herbergisþernu? La Grande bouffe? Síðastnefnda myndin, sú sem kom aðeins fyrir í bókinni sem ég gaf út í nóvember, Sögumanni (og sem auglýst er hér fyrir ofan, með kápumyndinni), er svo sannarlega kvikmynd sem hefur áhrif. Og hugsanlega mátt. Það er heldur ekki ólíklegt að sú mynd dragi úr manni allan mátt. Ég hafði annars verið að hugsa um að láta fylgja þessum orðum, úr því ég minntist á myndina um Jesú, svolítið brot úr þeirri mynd, The Passion of the Christ – helst senuna þar sem djöfullinn heldur á aldraða barninu – en svo fannst mér það ekki við hæfi; ég spurði mig meira að segja þeirrar spurningar hvort maður eigi yfirhöfuð að vera að þröngva djöflinum upp á annað fólk, hvort hann sjái ekki alveg um það sjálfur. Enda finnst mér líka mun meira við hæfi, á þessum síðasta degi ársins, að benda á lagið sem hljómar í La Grande bouffe, því það er eitthvað mjög áramótalegt við það lag: einhverjar ólíkar tilfinningar sem mætast. Ég læt meira að segja píanóútgáfuna fylgja líka; hún er ekki síðri en hin. Svo kemur nýtt ár í kvöld.