7. desember 2015

Hvíldardagurinn fór í að hvíla sig. Þess vegna stendur mánudagurinn uppi með engan texta. En hvíldardagurinn er ekki endilega sunnudagur – og sunnudagurinn hvíldardagur. Það er líka fyrir hendi sá möguleiki að skrifa eitthvað á mánudegi sem birtist samdægurs. Nú skil ég reyndar ekki lengur hvað ég er að fara. Undanfarið hef ég verið að hugsa um sunnudag sem ég átti í Þórshöfn, Færeyjum, fyrir tæpum tveimur árum – eða voru þau þrjú? Ég hafði verið á leiklistarhátíð – ég af öllum mönnum – og dagskránni var lokið á laugardeginum (eða leygardeginum, eins og ég held hann sé kallaður í Færeyjum). En það var ekkert flug til Íslands á sunnudeginum, þannig að ég mátti dvelja einn extra dag í Þórshöfn. Að vera einsamall á sunnudegi í Þórshöfn, Færeyjum (eftir að hafa verið í félagsskap fólks dagana á undan), getur verið krefjandi verkefni. Ég ákvað að fara í bíó. Það var verið að sýna mynd sem mig langaði gjarnan til að sjá. Bíóið var rétt hjá hótelinu. Áður en myndin hófst gekk ungur maður upp á sviðið fyrir framan sýningartjaldið og tók að segja bíógestum frá því sem þeir voru um það bil að fara að sjá. Þótt ég skildi ekki hvert orð fannst mér þetta góð hugmynd, og allt að því hjartnæmt að fá svona leiðsögn inn í myndina. Þessi mynd, sem fjallaði um Auguste Renoir, var alveg prýðileg, og ég gekk út af henni ánægður í sinni. En eftir á að hyggja, á mánudeginum, þegar ég flaug aftur til Íslands, velti ég því fyrir mér hvort þessi sunnudagur í Þórshöfn hefði verið hvíldardagur eða eitthvað annað. Því ég hafði í raun alls ekki hvílst. Þetta var einhver samþjappaðasti dagur (í merkingunni intensív) sem ég hef lifað. En ég ætla ekki að tjá mig meira um það að sinni; ég hafði hugsað mér að nota efniviðinn í lengra verk.