8. desember 2015

Nú hefi ég sjálfur lært að setja inn textann á þessum heimasíðu-viðmóts-vef mínum – nú þarf bróðir minn ekki lengur að sjá um það fyrir mig – og ég ætla að verðlauna okkur báða með því að henda inn einu 25 ára gömlu ljóði sem nefnist Oddatölur. Það er hér í prósaútgáfu: Þær voru þrjár sem ég sá koma eftir stéttinni, nákvæmlega þrjár, ósnertanlegar þrjár, óþolandi margar; tala sem verður ekki hnikað. Sjö vikur liðu. Sjö mánuðir hurfu út í buskann. Þrír mánuðir og aðrir þrír og einn. Og þá sá ég þær aftur, þrjár saman, ásamt þremur öðrum, og enn öðrum þremur, koma níu saman eftir stéttinni á móti mér einum.