2. janúar 2016

Fyrsti dagur ársins liðinn, og allt í einu kominn nr. 2. Sunnudagurinn á morgun verður því þriðji dagur ársins; mánudagurinn þar á eftir sá fjórði, og svo koll af kolli. En telst nýársdagur, þegar hann lendir á föstudegi, vera hvíldardagur? Allan gærdaginn velti ég þessu fyrir mér, án þess að komast að niðurstöðu. Nýársdagur? Dagurinn þegar allt er yfirstaðið, og spýtan af rakettunni hefur snúið aftur til jarðar. Samkvæmt Biblíunni (sem ég fékk í jólagjöf) voru lærisveinar Jesú eitt sinn svangir á hvíldardegi (líkt og á öðrum dögum væntanlega) og tóku að tína sér kornöx til að éta. En þá komu farísearnir að máli við Jesú og sögðu við hann: „Lít á, lærisveinar þínir gera það sem ekki er leyft að gera á hvíldardegi.“ Jesús átti ekki í erfiðleikum með að svara því. Svar hans er reyndar svolítið langt, og heldur ruglingslegt, en það endar á þessum orðum: „Mannssonurinn er Drottinn hvíldardagsins.“ Drottinn hvíldardagsins? Ég er engu nær. Auk spurningarinnar hvort nýársdagur teljist vera hvíldardagur velti ég þessum orðum Jesú fyrir mér í gær, að minnsta kosti part úr degi; en skil ekki neitt ennþá. Enda líklega of stutt liðið af nýju ári til að byrja að gorta sig af nýjum niðurstöðum. Ég tel mig þó vita eitt: að prikið undan flugeldinum hefur snúið aftur til jarðar, og hafi það lent í garðinum hjá mér, þá er mér frjálst að ná í það og nota að vild. Þess vegna að ota því í áttina að einhverjum mannssyninum og segja honum til syndanna.