25. janúar 2016

Það líður varla sú vika að ég fái ekki hugmynd að nýrri bók eða sögu, stundum ljóði en aðeins sjaldnar leikriti. Sem er ekki gott, því hver ný hugmynd truflar þá sem er í vinnslu í það og það skiptið. Nýjasta hugmyndin er sú að skrifa bók um ferðir mínar um Ísland. Titillinn yrði væntanlega Ferðir mínar um Ísland. Fyrstu rökin gegn þeirri hugmynd eru reyndar augljós: ég hef sáralítið ferðast um landið; en sú staðreynd er á hinn bóginn það sem ef til vill mælir helst með hugmyndinni, og gæti orðið til þess að ég léti verða af því að hrinda henni í framkvæmd. Ég hef satt að segja ekki hugmynd um hvers vegna ég fékk þessa hugmynd. Það getur þó verið að ég hafi verið að lesa einhverjar ferðabækur nýlega, og dáðst að einhverju þar, og kannski hugsað sem svo að ég gæti alveg gert svona. En því færri ferðir sem maður hefur til að spila úr, því færri sem maður hefur farið sjálfur, þeim mun auðveldara er að velja úr, komi að því að skrifa um þær. Ég geri mér grein fyrir að þetta er mótsögn; en mótsagnir reynast mér oftast betur í starfi (og leik), því ég hef tilhneigingu til að láta hið rökrétta og samhverfa draga úr mér áhugann, jafnvel kjarkinn. Ég þyrfti til dæmis ekki að velta vöngum yfir því hvort ég ætti að hafa með í fyrirhugaðri bók (ef beinlínis er rétt að nota orðið fyrirhugaðri) ferð mína á Fáskrúðsfjörð, en sleppa (svo ég nefni bara eitthvað) ferðinni í Borgarfjörð eystri eða norður á Dalvík, einfaldlega vegna þess að ég hef aldrei komið í Borgarfjörð eystri eða á Dalvík. En hvað sem þessu líður hef ég þegar tekið ákvörðun um að minnsta kosti eina ferð sem ég mun skrifa um, fari svo að bókin komist á koppinn. Ísafjörður í nóvember 2010. Ég fór nefnilega til Ísafjarðar það ár, ásamt fleiri höfundum, til að lesa upp úr nýútkominni bók. Það var kalt í þeirri ferð, og snjór yfir öllu; við dvöldum í bænum yfir helgi, fjórir karlkyns höfundar, einn kvenkyns; ég man ekki hvort það voru tvær nætur eða ein. Einna minnisstæðast úr þessari ferð er heimsókn í kirkjuna fyrir hádegi á sunnudeginum. Einn okkar kannaðist við prestinn; þeir höfðu verið saman í skóla. Annars er maður ekki vanur að fara í kirkju með öðrum höfundum – það er í sjálfu sér svolítið framandi hugsun. Eða hvað? Er það svo? Hér verð ég reyndar aðeins að staldra við. Getur ekki einmitt verið að maður fari beinlínis oftar í kirkju með starfsbræðrum sínum og -systrum en öðru fólki? Ég er ekki að segja að rithöfundar deyi oftar en annað fólk, en þegar ég hugsa betur um það, þá finnst mér ég hafa verið í ansi mörgum útförum þeim tengdum á síðustu árum. En það er auðvitað bara eitthvað sem mér finnst – ekki endilega það sem er. Það sem annars stendur upp úr áðurnefndri Ísafjarðarheimsókn, svo ég komi aftur að henni, gerðist á laugardeginum, sem var annað hvort dagurinn sem við komum eða annar dagur ferðarinnar, ég man það ekki alveg. Ég hafði gengið yfir í bakaríð gegnt hótelinu sem við dvöldum á (þetta er vel þekkt bakarí, var mér sagt; það er kallað Gamla bakaríið), og á meðan ég sat þar með kaffibolla og eitthvað brauðkyns til að dýfa í kaffið sá ég út um gluggann að einn okkar höfundanna, E., stóð fyrir utan hóteldyrnar í kuldanum og var að reykja. Ætli ég hafi ekki fylgst með honum í nokkrar mínútur – mig minnir að hann hafi reykt tvær sígarettur – en svo fór hann inn, og ég fór sjálfur stuttu síðar út úr bakaríinu, og þaðan yfir í Eymundsson-bókabúðina við sama torg. (Ég hef ábyggilega verið að athuga hvort bækur okkar höfundanna að sunnan væru til sölu í búðinni.) En þegar ég fór aftur á hótelið, og staldraði aðeins við fyrir framan dyrnar, til að virða fyrir mér torgið, tók ég eftir að E. var kominn inn í bakaríið; hann sat við sama borð og ég hafði setið fyrir stundarfjórðungi eða svo. Við höfðum með öðrum orðum skipt um stað. Ég var núna við hótelið; hann inni í bakaríinu. Ég reyndi að sjá hvort hann tæki eftir mér, en svo virtist ekki vera; hann horfði bara fram fyrir sig, en ekki út um gluggann. (Var hann ef til vill of kunnugur staðnum til að nenna að vera að horfa út um gluggann?) Ég ákvað hins vegar að standa ekki lengi fyrir framan hótelið, því einhverra hluta vegna leið mér betur með að E. myndi ekki taka eftir mér; að ég væri einn um að vita um ferðir okkar beggja þennan tæpa hálftíma sem um ræddi. En auðvitað gat ég ekki verið viss um að E. tæki ekki eftir mér þegar ég sat inni í bakaríinu og hann stóð reykjandi fyrir utan hótelið. Það var síðan daginn eftir, eins og ég var búinn að nefna, sem við fórum saman í kirkjuna – þá vorum við allir saman, höfundarnir sem heimsóttu Ísafjörð þessa helgi árið 2010.