25. febrúar 2016

Af því ég hef verið að skrifa svolítið sem tengist árinu 1976 hef ég alveg gleymt því að núna er árið 2016, og það er kominn 25. febrúar. Vika liðin. Margir mánuðir liðnir. Mörg ár, og áratugir. Ég er staddur inni í gamla unglingaherberginu mínu. Ég hélt að væri 24. febrúar í dag. Ég fylgist ekki með tímanum. Er ekki kominn tími á músík? Ég fer inn í hámóderníska stofu í finnsku einbýlishúsi árið 1970, þetta líkist ekkert íbúð foreldra minna á sama tíma (ég get reyndar ekki fullyrt um hvernig hún var nákvæmlega þá, því minnið nær ekki nema til 1972) ; og þarna er Bill Evans kominn í heimsókn með bassa- og trommuleikarann sinn, Eddie Gomez og Marty Morell. Það er dásamlegt að fylgjast með Finnunum fylgjast með Bill Evans tala og spila. Þessi heimsókn tríósins hefur ábyggilega verið rifjuð upp mjög oft meðal gestgjafanna og gesta þeirra. Ég held að þetta sé einhvers staðar fyrir utan Helsinki. Bill Evans er ekki kominn með skeggið þarna – hann er auðvitað miklu myndarlegri svona – og hann minnir óneitanlega á ákveðinn íslenskan rithöfund. Ef ég mætti taka með mér eitt tónlistarmyndband á eyðieyjuna (sem þýddi að ég fengi að hafa með mér tölvuna líka, fullhlaðna af rafmagni), þá held ég að þetta yrði fyrir valinu: