27. febrúar 2016

Finnland og jazz. Ég hafði ekki hugsað mér að minnast á þetta tvennt aftur, ekki svona í sömu andránni; en svo losna ég ekki við myndina (úr síðustu færslu) af Finnanum með hökutoppinn að hlusta á Bill Evans í fallegu stofunni, jafnvel þótt ég hafi kíkt á bókamarkaðinn undir stúkunni í dag, og séð ýmislegt þar sem hefði átt að ýta burt myndinni af Finnanum. Og ég fór að rifja upp heimsókn mína í plötubúð í Helsinki fyrir nokkrum árum. Ég hafði leitað sérstaklega að jazzplötubúð í borginni, með hjálp netsins, og fann þessa fínu búð sem átti að opna klukkan 11 fyrir hádegi. Ég var mættur fyrir utan búðina eitthvað aðeins fyrir klukkan 11, og var því fyrsti viðskiptavinur dagsins. Búðin var stórfín; hún seldi ekki bara jazz heldur líka allskonar þjóðlagatónlist, og auðvitað finnskan tangó. Áður en ég held áfram ætti ég líklega að taka fram að ég er ekki að fara að segja einhverja sögu; það var ekkert sérstakt sem gerðist þarna í búðinni, fyrir utan að ég keypti þrjá eða fjóra geisladiska, þar á meðal einn með finnskum tangó. Mér finnst bara svo skemmtilegt að rifja upp þegar næstu viðskiptavinir á eftir mér komu í búðina; það voru tveir menn, þeir komu í sitthvoru lagi, og þeir byrjuðu að tala eitthvað við manninn hinum megin við afgreiðsluborðið – um jazz – og mér fannst svo fallegt að heyra nöfnin á amerísku jazzleikurunum hljóma innan um alla finnskuna. Annað var það ekki. Þetta er ein af fallegustu minningum sem ég á úr evrópskri borg.