3. febrúar 2016

Fyrir tveimur árum eða svo setti ég saman fjóra klukkutímalanga þætti fyrir Ríkisútvarpið, þar sem ég valdi tónlist af geisladiskum úr eigin safni, og spjallaði eitthvað í kringum þá tónlist. Það var skemmtilegt verkefni, en um leið erfitt, því með því að velja einhverja ákveðna músík útilokar maður aðra músík. Fyrir nokkrum dögum bauð síðan útvarpsmaðurinn Hallgrímur Thorsteinsson mér í þátt til sín á hinni ríkisstöðinni, númer tvö, þar sem ég átti líka að velja músík og spjalla eitthvað í kringum hana. Þetta var ekki síður skemmtilegt en þættirnir sem ég bjó til sjálfur, og á sama hátt erfitt; en til allrar hamingju fékk ég ekki nema hálfan dag til að velja lögin fyrir Hallgrím – hefði ég haft nokkra daga er ég hræddur um að þeir dagar hefðu ekki nýst nema að litlu leyti í þeirri vinnu sem ég stunda allajafna. En þegar ég tók þessi plötusnúðaverkefni að mér fór ég að hugsa um svolítið sem snýr að tónlistarsmekk og -neyslu; svolítið sem mig minnir að ég hafi minnst á í þáttunum fjórum á Rás eitt, en lét vera að tala um í spjallinu við Hallgrím (enda var um nóg annað að tala á þeim klukkutíma sem þar var skammtaður). Ég fór að hugsa um þá staðreynd að heilmikið af þeirri músík sem ég held mest upp á er búin til af tónlistarmönnum sem ég kæri mig ekkert sérstaklega um að aðrir viti að ég hlusti á. Að vísu kemst það fólk sem ég bý með ekki hjá því að vita um hverja ræðir – frekar snúið að vera að pukrast með þetta inni á heimilinu – og kannski nánustu vinir líka; en ég kæri mig ekki um að þessi nöfn spyrjist mikið út að öðru leyti. (Líklega er þó rétt að nefna að ég er ekki að tala um Boney M, The Eagles eða Olsenbræðurna – þetta er ekki svoleiðis.) Núna dauðlangar mig reyndar til að gefa upp nöfn, þótt ekki væri nema nokkur af þeim sem ég hef í huga. Bara eitt eða tvö. Í mesta lagi þrjú. Enda eru þeir ekki mikið fleiri en það, þessir menn sem ég stend í hálfleynilegu sambandi við sem aðdáandi. En ég finn samt að ég vil það ekki. Ég óttast nefnilega að með því að varpa fram þeim upplýsingum muni ég gera það að verkum að sá sem les þetta (vel að merkja „sá“, því ég held, og hálfpartinn vona, að lesendur séu ekki fleiri en einn) fari að sjá mig fyrir sér á einhvern allt annan hátt en ég vil að horft sé á mig; að myndin sem ég vona innst inni að lesandinn hafi af mér sem tónlistaráhugamanni muni brenglast, eða beinlínis verða hlægileg í því ljósi að ég hlusti líka (og þá hugsanlega miklu meira) á þá tónlistarmenn sem ég er í þessari færslu að leitast við af fremsta megni að nefna alls ekki. Það er vandlifað. Þegar ég tók saman tónlistina fyrir Rásar eitt- og Rásar tvö-þættina var ekki laust við að mér liði eins og ég væri að svíkja þá tónlistarmenn sem ég ákvað að taka ekki með í stúdíóið í Efstaleiti. Að ég væri að afneita þessu fólki sem hefur glatt mig svo mikið í gegnum tíðina. En það er ekki bara vandlifað; þetta er líka býsna flókið mál. Til dæmis hika ég ekki við að segja einum ákveðnum vini mínum að ég hlusti á tónlistarmanninn X, en mér dytti ekki í hug að játa þá sök fyrir öðrum vini mínum. Þannig að þegar þessir tveir vinir eru samtímis í heimsókn hjá mér (sem gerist reyndar ekki oft), þá er alls ekki rætt um tónlistarmanninn X, því fyrrnefnda vininum, sem segir sig sjálft að heldur mikið upp á X, er fullkunnugt um að þeim síðarnefnda er lítið um X gefið, og skammast sín alveg jafn mikið og ég fyrir að halda upp á hann. Ég geri mér reyndar grein fyrir því núna, um leið og ég segi frá þessum vinum mínum, að við tölum aldrei um músík þegar við hittumst. Ég nefni þessa menn einungis í þeim tilgangi að reyna að útskýra eitthvað. Eitthvað sáraeinfalt (þótt ég hafi lýst því yfir að það væri flókið). Faðir minn sagði stundum eftirfarandi orð á þýsku (sem ég vona að ég fari rétt með; ég er ekki sleipur í þýsku): Warum einfachen wenn mann komplizieren kann? Ég notaði þessi orð meira að segja í smásögu sem ég gaf út fyrir tuttugu árum. Núna nota ég þau aftur.