15. mars 2016

Svo hollt er manneskjunni að leiðast – kannski helst börnum en ekki síður fullorðnum – að manneskjan sem situr ein við borð á veitingastaðnum dauðskammast sín fyrir að leiðast ekki. (Það er ekki svo að ég sé í augnablikinu að fylgjast með þessari manneskju; ég er að búa hana til.) Gestirnir á næstu borðum líta út fyrir að leiða ekki einu sinni hugann að leiðanum. En allir eiga þeir fyrir höndum að fara heim til sín – og hér minni ég mig aftur á að ég er að búa þessa gesti til – þar sem þeim mun leiðast svo mikið að þeir leggja umsvifalaust drög að því að fara aftur út sem fyrst. (En auðvitað eru það bara drög. Ég á heldur ekki við að þessir „gestir“ mínir fari á veitingastað strax kvöldið eftir. Sjálfur fer ég afar sjaldan á veitingastað; og þegar það gerist, þá hugsa ég iðulega: Nú munu líða margir dagar, jafnvel vikur, þangað til ég fer aftur.) Manneskjan sem situr ein á þessum ímyndaða veitingastað mínum er eina manneskjan á staðnum sem í augnablikinu er heima hjá sér.

ps. Ég sé fyrir mér að tómatarnir í salatinu á veitingastaðnum séu ræktaðir á Spáni, í þessum gróðurhúsum hér í Almería: