19. mars 2016

Reglulega (þ.e.a.s. óreglulega) fer ég í Hólavallagarðinn til að athuga hvort leiði og legsteinn Alexíusar Árnasonar lögregluþjóns sé ekki enn á sínum stað. Síðast fór ég á miðvikudagskvöldið var, rétt áður en dimmdi. Ég hef áður minnst á Alexíus hér, og mig grunar að ég eigi eftir að gera meira af því síðar. En ég nefni þetta núna vegna þess að á fimmtudagsmorgun hafði dottið inn um bréfalúguna Morgunblaðið (það gerist stundum á fimmtudögum; þeir eru að kynna fyrir “non-subscribers” blaðið sitt, þeir hjá Morgunblaðinu); og í því var svolítil umfjöllun um Alexíus Árnason, meira að segja með ljósmynd af honum sem ég hafði ekki séð áður. Í greininni var minnst á að Þórbergur Þórðarson hefði sagt frá Alexíusi í Ofvitanum, og þá auðvitað í tengslum við Bergshús, en það var einmitt Alexíus sem lét byggja Bergshús á sínum tíma. Það er svolítið síðan ég las Ofvitann, og ég mundi ekki eftir að fjallað væri um Alexíus þar. Það þarf varla að taka fram að frásögn Þórbergs af þessum fyrsta íslenska lögregluþjóni í Reykjavík er bráðskemmtileg (ég á örugglega eftir að minnast á hana aftur), en það er annað textabrot eftir Þórberg sem mig langaði til að deila hérna núna; það er að finna í kaflanum á undan þeim sem segir frá Alexíusi, kaflanum Baðstofunni, þar sem sagt er frá Baðstofunni í Bergshúsi. Þar skrifar Þórbergur þetta:

 

Allir Íslendingar kunna að lesa bækur. En hversu margir kunna að lesa hús? Það er meiri íþrótt að kunna að lesa hús en að geta lesið bækur. Húsið er hugsun, sem hefur hæð, lengd og breidd. Bókin er vöntun á hugsun, sem aðeins hefur lengd. Húsið er sannleikurinn um líf kynslóðanna. Bókin er lygin um líf þeirra. (Ofvitinn, bls. 58)

 

Þetta rímar mjög skemmtilega við bók sem ég les alltaf í annað slagið: The Poetics of Space eftir Frakkann Gaston Bachelard. Sú bók (á frönsku La poetique de l´espace) kom út árið 1958. (Hér er brot úr henni, sem ég vel nánast af handahófi: It therefore makes sense from our standpoint of a philosophy of literature and poetry to say that we “write a room,” “read a room,” or “read a house.” Thus, very quickly, at the very first word, at the first poetic overture, the reader who is “reading a room” leaves off reading and starts to think of some place in his own past.) Þórbergur gaf út Ofvitann á árunum 1940-41. Ég ætla ekki að fara að draga neinar ályktanir af því, í tengslum við útgáfuár bókar Bachelards, eða halda einhverju fram; en þetta er áhugavert. Og enn og aftur spyr maður sig að því hvers vegna stalínistanum Þórbergi er ekki haldið að íslenskum grunnskóla- og menntaskólanemum.