29. mars 2016

Boðað hafði verið til fundar hjá Smekkleysu í dag. Eitthvað um fjármálin og 30 ára afmæli félagsins (sem verður í júní). Ég hafði móttekið boðið á laugardaginn var, og var þá kominn til Akureyrar, með það plan að koma aftur til Reykjavíkur á annan í páskum (í gær); en nú er svo komið að ég er enn á Akureyri. Reyndar ekki fluttur hingað – brottförin frestaðist bara um einn dag (sem héðan í frá verður nefndur „aukadagurinn“). Ég fór í heilsubótargöngu fyrr í morgun, svokallaðan constitutional. Ég gekk frá gistihúsinu niður að Helgamagrastræti. Þar, í efsta hluta götunnar, eru falleg fúnkishús beggja megin; en svo, þegar maður heldur áfram, kemur maður að háum snjóbing, og bakvið hann er leikvöllur, meira og minna þakinn snjó; og næst leikvellinum er hvíta húsið með mörgu gluggunum, það sem kemur fyrir í bókinni um Ármann Val Ármannsson, Fjarverunni. Þar sem hvítu ljónin standa vörð við innganginn. Fyrir framan aðaldyr hússins er páskaskreyting, svolítið hlægileg, ef maður horfir á hana þannig. Ég greikka sporið; ég vil ekki að fólk sjái mig vera að skoða húsið. Næst er Hamarstígur, síðan Bjarkarstígur, þar sem Davíðshús stendur. Þar sem Ármann Valur dvaldi þá daga sem hann var á Akureyri (þegar hann hitti Þorbjörn Gest). Ég er ekki viss um að Ármann Valur hafi gert sér grein fyrir hversu nálægt Davíðshúsi ljónahúsið er. Það er í raun bara nokkur skref í burtu. Ég hef á tilfinningunni að hann hafi ekki gengið stystu leið frá Davíðshúsi að ljónahúsinu. En var það nákvæmlega þetta hús (með ljónunum) sem Esther (eða Ester, nú man ég ekki hvort var; hef ekki bókina við höndina) bjó í með útgerðarmanninum? Það er ómögulegt fyrir höfund að vita það með vissu. Það gæti hafa verið annað hús; að þetta tiltekna hús við Helgamagrastræti hafi einungis verið fyrirmyndin. Þetta hverfi hér á Akureyri af afskaplega sjarmerandi. Gilsbakkavegur, Oddeyrargata, Bjarmastígur, Krabbastígur og Bjarkarstígur (Davíð Stefánsson fékk það í gegn að sá hluti Krabbastígs sem hann lét reisa húsið sitt við yrði kallaður Bjarkarstígur – var eitthvað illa við Krabbann, greinilega). Ef það gerðist einhvern tíma að maður flytti til Akureyrar (sem ég held að muni ekki gerast), þá yrðu þessar götur fyrir valinu. Eða kannski Eyrarlandsvegur ofan við kirkjuna, það er aldrei að vita. Það eru partar í bænum sem eru svo fallegir að maður hreinlega gleymir fyrstu setningunum í Bréfi til Láru; þær einfaldlega detta úr minninu, og það hvarflar ekki að manni að láta það trufla sig að fólkið hér sé norðlenskt og allt það. En þetta var ekki það sem ég ætlaði að setja inn í þessa færslu. Ég var að tala um Smekkleysufundinn. Hann verður haldinn. Án mín. Ég verð ennþá fyrir norðan, hugsanlega þó sestur í bílinn og farinn af stað suður. Svo verður haldinn annar fundur – það er alltaf haldinn annar fundur.