18. apríl 2016

Í gær, sunnudag, var ég spurður að því hvort ég hefði í raun og veru farið til Akureyrar um páskana, eins og ég gaf í skyn hér á síðunni (og ekki bara gaf í skyn, heldur nánast fullyrti, ef ekki sagði berum orðum) að ég hefði gert. Þegar ég svaraði (þetta var í gegnum síma) lagði ég mig fram um að gefa eins loðið svar og mér var unnt, enda vildi ég ekki að hægt væri að vitna í orð mín því til sönnunar að ég hefði í raun og veru farið – eða ekki – til Akureyrar. Mér er nefnilega vandi á höndum þegar ég stend frammi fyrir spurningum á borð við þessa (hvort ég hafi farið til Akureyrar, osfrv) – eða öllu heldur: þegar ég er krafinn svars um það hvort lýsingar mínar og frásagnir á þessum rafrænu blaðsíðum hér á netinu byggi á því raunverulega, eða því sem okkur er sagt að sé raunveruleiki og/eða teljum okkur sjálfum trú um að svo sé. Ég gef mér líka þann möguleika að lýsingarnar og frásagnirnar séu einhvers konar póetískt rými þess sem þær skrifar, með eða án veggja, eða einhver mér óþekkt tegund af hliðarveruleika, þar sem bæði eru veggir og dyr, og meira að segja gluggar líka. Í dag, mánudag, hefur verið boðað til blaðamannafundar á Bessastöðum. Ég heyrði það í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Hvað merkir það? Hvað gengur forsetanum til? Hvað á það að þýða að vera með blaðamannafund svona nokkurn veginn fyrirvaralaust á mánudegi? Spurning hvort ástæða verði til að hafa aukafærslu (einhvers konar undirkafla) að þeim fundi loknum. En – það er alltaf hið stóra EN – ég hafði lofað að tala um Sögu tónlistarinnar, bókina sem var að koma út hjá Forlaginu um daginn. Og aftur stend ég frammi fyrir ákveðnum vanda. Því ég vil helst ekki gefa uppi hvort ég hef þá bók undir höndum eður ei. En hvað sem því líður, þá eru hérna tvær setningar úr henni (sem ég gæti hafa lesið á bókasafninu og lagt á minnið; en gæti líka verið að rati svona hárrétt á síðuna einmitt vegna þess að Saga tónlistarinnar liggur opin fyrir framan mig): „Þegar síminn hringir og þú svarar er það ekki tónlist. Ef hann hringir og þú svarar ekki, þá er það tónlist.“ Þetta kemur frá John Cage. En meira um bókina hans Árna Heimis síðar. Annaðhvort þarf ég að verða mér úti um hana, eða ég þarf það ekki. Og fyrst ég er búinn að nefna bæði tónlist og myndir (Sögu tónlistarinnar og John Cage og allt það; og Ólaf Ragnar að undirbúa sig fyrir blaðamannafundinn), þá finnst mér við hæfi að birta texta úr bók sem ég gaf einu sinni út, texta sem einmitt fjallar um hljóð og mynd:

 

HLJÓÐ OG MYND

 

Eftir að hafa reynt í rúmar þrjár vikur tókst mér að ná mynd af símanum á sama augnabliki og hann hringdi. Þá hafði hann hringt allt að hundrað sinnum og ég ýtt um það bil helmingi oftar á takkann á myndavélinni. En það tókst að lokum. Allt tekst að lokum. Líka þetta.