20. apríl 2016

Seint í gær, gott ef ekki í gærkvöldi, datt inn um bréfalúguna nýtt tölublað af DV. Ég sá reyndar ekki strax að þetta væri DV, því forsíðan var heilsíðuauglýsing – það var einungis mjó lína á vinstri kanti blaðsins sem gaf til kynna um hvaða blað væri að ræða. Línan var með rauðum og hvítum röndum, eins og á rakarastofustöng. DV er sannarlega einkennilegt blað. Mér finnst ekki ólíklegt að það sé gefið út í þeim tilgangi einum að vera lesið á rakarastofum. En auðvitað þarf dagblað ekki að hafa einhvern yfirlýstan tilgang – það þarf ekki einu sinni að hafa tilgang – ekki frekar en skáldverk eða líf manneskjunnar í heiminum. Leiðari blaðsins fjallar um Frans páfa. En talandi um líf manneskjunnar, þá er áðurnefnd heilsíðuauglýsing, sú sem blasti við mér þegar ég teygði mig eftir blaðinu sem datt inn um lúguna í gær – og sem virkar eins og hlífðarkápa utan um sjálft DV-tölublaðið – frá fyrirtæki sem kallar sig Graníthöllin, og gerir út frá Hafnarfirði. Það er orðið frekar algengt að dagblöð „pakki sér svona inn“ í auglýsingar. En hvað hefur þessi auglýsing frá Graníthöllinni með „líf manneskjunnar“ að gera? Svarið við þeirri spurningu er ábyggilega mjög margþætt, jafnvel flókið (svo maður notist við orðalag úr íslenskri stjórnmálaumræðu), en einfalt svar við henni gæti verið á þá leið að líf kviknar á vorin, og blómstrar síðan með sumrinu. Auglýsingin fjallar nefnilega um vorið og sumarið (sem formlega kemur á morgun, 21. apríl). Hún er svona:

 

VORIÐ ER KOMIÐ OG NÚ ER RÉTTI TÍMINN TIL AÐ HUGA AÐ SUMRINU

 

Graníthöllin

Legsteinar

 

PANTAÐU SNEMMA OG FÁÐU STEININN TÍMANLEGA UPP

 

ALLT INNIFALIÐ

með öllum okkar legsteinum

 

(Fyrir neðan textann er mynd af legsteini hjóna sem hétu Rósa Margrét Jónsdóttir og Jón Magnús Jónsson. Hún var fædd 10. 2. 1924, og dáin 21. 3. 2012; hann, Magnús, var fæddur 17. 4. 1922 – það ár sem allt var að gerast í módernískum skáldskap – og dáinn 29. 9. 2013. Fyrir neðan nöfn Margrétar og Jóns Magnúsar, hægra megin á steininum, stendur letrað, með skáletri: Blessuð sé minning ykkar)