30. apríl 2016

Fyrir nokkrum dögum datt inn um bréfalúguna kynningareintak af fréttablaðinu DV. Þar var í leiðaranum fjallað um páfann Frans. Nú í morgun kom hið norður-kóreska fréttablað Morgunblaðið (kynningareintak) inn um lúguna, og ekki bara eitt blað, heldur tvö: laugardags- og sunnudagsblað. Sem þýðir að á morgun, sunnudag, sem allajafna er prentblaðalaus dagur, getur maður lesið „yfir morgunkaffinu“ sunnudagsblað Morgunblaðsins. Í „laugardagsblaðinu“ er tveggja opnu umfjöllun um ritstjóra Morgunblaðsins. Hún er skrifuð af prófessor ritstjórans í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands. Ég hef fyrir ósið að lesa svona greinar „afturábak“, það er að segja að byrja á endanum, og þræða mig síðan í átt að byrjuninni. Vegna tímaleysis (laugardagar eru oftar en ekki „uppteknari“ dagar en þeir „virku“), þá ætla ég bara að láta hér fylgja nokkrar setningar úr síðustu málsgrein greinarinnar. Ég læt vera að nefna nafn ritstjórans og þjóðarinnar sem um ræðir í brotunum, af tillitssemi við ritstjórann og þjóðina (ég set þau innan hornklofa), en ég mæli með að þetta lesist með norður-kóreskri framsögn og áherslum:

„Þegar Ísland var að falli komið hugsuðu vinstrimenn um það eitt að flæma [ritstjóra blaðsins] úr Seðlabankanum. Skyldi nú hefnt ófara þeirra í ótal viðureignum við hann.“

„Nú virtist [ritstjórinn] hafa beðið miklu stærri ósigur en árið 2004, þegar honum mistókst að koma í veg fyrir skefjalaust auðræði. En hann kiknaði ekki undan högginu, heldur spratt upp og gerðist ritstjóri Morgunblaðsins. Þar skrifar hann beinskeytta og áhrifamikla pistla og beitir sér af alefli.“

„En þrátt fyrir alla sína sigra er [ritstjóri blaðsins] enn sami upplitsdjarfi alþýðupilturinn og þegar hann lagði fyrst út á stjórnmálabrautina með sitt góða vegarnesti úr rösklega ellefu hundruð ára sögu [þjóðarinnar sem hann reyndi hvað hann gat – af fremsta megni – að forða frá skefjalausu auðræði].“