8. apríl 2016

Kannski er það aukakaffibollinn sem ég drakk í morgun sem hraðar svona á hjartslættinum, en ég held samt að það sé fjármálaráðherra Íslands. Og nýi forsætisráðherrann. Og maðurinn sem nú er búið að skipa sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem strangt til tekið er nafni minn, þótt ég heiti ekki Gunnar eins og hann. (Það eru þrjú sem í síðustu setningu; það skrifast á hraða hjartsláttinn. Og það uppnám sem ég tel mig vera í þessa stundina.) Mér er skapi næst að vitna í eitthvert skáld. Ég veit ég gerði það í síðustu færslu; en mér finnst eins og ég ætti að gera það aftur. Jafnvel að biðja Guð að blessa mig og alla hina líka. Ég ætla samt ekki að gera það; ég ætla frekar að vitna í fjármálaráðherrann: „Tímarnir hafa aldrei verið eins bjartir og einmitt nú.“ (á Alþingi Íslendinga, 8. apríl 2016)