10. maí 2016

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Ljóðskáldið Mallarmé sagði við myndlistarmanninn Degas: „Minn kæri Degas, ljóðlistin verður ekki til úr hugmyndum; hún verður til úr orðum.“ En úr hverju verður þá myndlistin til? Mig grunar að svarið við þeirri spurningu sé eitthvað aðeins flóknara en það sem snýr að ljóðlistinni. Ég ætla ekki að reyna að svara henni, en með því að fullyrða að eftirfarandi texti sé ekki ljóðlist, þá ætla ég að giska á að hann flokkist frekar sem myndlist (að vísu ekki eftir Degas):

 

HIÐ ÓÞARFA C

 

Ég sit með þremur fullorðnum karlmönnum á kaffihúsi í Hafnarfirði. Það er kvöld. Með orðinu „fullorðnum“ á ég ekki við eldri menn, heldur menn á svipuðum aldri og ég sjálfur – að vísu er einn þeirra rúmum tíu árum eldri en við hinir, en mann á slíkum aldri er varla rétt að kalla eldri mann. Ég segi við mennina: „Ég er að hugsa um að gefa út bók.“ En ég fæ engin sérstök viðbrögð. „Ég er að hugsa um að gefa út bók með einhvers konar ljóðum,“ segi ég til frekari útskýringar. En viðbrögðin verða ekki meiri við það. „Það er sem sagt planið,“ bæti ég við. En þegar sú viðbót fær heldur engar undirtectir, ákveð ég að líta svo á að málið sé útrætt, þótt varla sé hægt að tala um að það hafi verið rætt mikið.