12. maí 2016 (aukafærsla)

Rósa Sæberg var að hringja í mig aftur. Ég er enn staddur erlendis, eins og kom fram í fyrri færslu dagsins, aðalfærslunni; og ég sagði við Rósu (nú finnst mér sem snöggvast að nafn hennar sé orðið mér tamt, sem það er alls ekki) að ég væri í útlöndum, og það gæti orðið öðru okkar dýrt að tala svona í farsíma milli landa, annaðhvort henni eða mér – ég man aldrei hvor aðilinn borgar fyrir símtal milli landa, sá sem staddur er erlendis eða sá sem staddur er heima, í því landi sem síminn er skráður. Auk þess spurði ég Rósu, áður en lengra yrði haldið, hvert væri erindi hennar með símtalinu, hvort hún hygðist halda áfram með viðtalið í tilefni af útgáfu Dulnefnanna (bókarinnar sem ég gaf út um daginn); þetta viðtal sem í raun komst aldrei á skrið; sem ég skildi ekki alveg hvers vegna hún hefði léð máls á að taka. (Ég hef enn á tilfinningunni að hún, Rósa, viti í raun ekki neitt um þessa bók mína. Og allt í lagi með það.) En nei; þetta (að halda áfram með viðtalið osfrv.) var ekki það sem vakti fyrir Rósu Sæberg með símtalinu núna; hún væri með aðra spurningu frá vinkonu sinni, Lindu Gylfadóttur; hún, Rósa, hefði sagt henni (Lindu) að ég myndi ekki eftir henni frá því á skólaafmælinu; og Lindu hefði fundist það skrítið, vegna þess hversu lengi við töluðum saman (ég og þessi Linda) þegar við hittumst. „Ég er ekki mjög mannglöggur,“ sagði ég við Rósu, og mundi um leið að ég hafði nefnt það við hana áður, í símtalinu um daginn. Svo bætti ég við: „En hver var spurningin frá Lindu?“ (Þetta var ofurlítið farið að fara í taugarnar á mér; ég var nefnilega á leiðinni út af hótelinu.) En þá mundi Rósa ekki spurningu Lindu. Hún sagðist myndu hringja í hana, og hringja síðan aftur í mig. Ég ítrekaði við Rósu að ég væri erlendis, og bað hana að hringja daginn eftir, eða jafnvel senda mér póst. En þá var engu líkara en að ég hefði móðgað hana á einhvern hátt. Ef til vill er ég þó að misskilja þau viðbrögð hennar; og í raun hef ég ekki tíma til að velta þessu fyrir mér frekar núna í augnablikinu; ég þarf í raun og veru að fara út af hótelinu. Það verður bara að koma í ljós hvort Rósa hringir aftur. Og meira um það síðar – ef af verður.