14. maí 2016

  1. maí síðastliðinn birti ég ljóð um framandi lönd. Það var ort í Noregi fyrir fimm árum, í pappírsbænum Moss. Sem sagt: á framandi slóðum. Ég veit að þetta hljómar sem formáli að því að ég ætli að birta enn eitt ljóðið, en það er ekki það sem ég hef í hyggju. Í dag hafði ég nefnilega hugsað mér að segja frá „nýju“ símtali við „blaðakonuna“ Rósu Sæberg (sem ég kalla blaðakonu innan gæsalappa, því ég hef engar áþreifanlegar sannanir fyrir því að hún sé blaðakona). Hún hringdi í mig í gær – aftur – þangað sem ég er staddur erlendis. Og ég veit satt að segja ekki hvað ég á að segja um það símtal. Ég held ég þurfi beinlínis meiri tíma til að „vinna úr“ því. Því mig grunar að hún, Rósa, hafi verið drukkin þegar hún hringdi – og ekki bara grunar: ég tel mig vita það með vissu. Hún sagðist vera í félagsskap vinkonu sinnar Lindu; þær væru á heimili þeirrar síðarnefndu; en það var þó ekki að heyra á Rósu að fótur væri fyrir því. Hún sagðist vilja láta mig tala við Lindu; að best væri að hún, Linda, spyrði mig út í „okkar gömlu kynni“ á skólaafmælinu; en þegar ég sagðist vera tilbúinn til þess, að tala við Lindu, þá var eins og kæmi eitthvert hik á Rósu; þá var eins og hún vildi ekki kannast við að hafa nefnt þetta (að við Linda ættum að tala saman). En allavega, þá verður „úrvinnsla“ þessa símtals að bíða eitthvað. (Þegar maður er erlendis, þá vill oft taka lengri tíma að vinna úr hlutunum: að grisja hið nothæfa úr öllu óþarfa áreitinu.) Mig langaði auk þess að láta færslu dagsins í dag „byggjast á“ tveimur gömlum textum sem ég gróf upp í tölvunni; og þar kemur tengingin við fyrstu orð færslunnar, því þessir gömlu textar koma nefnilega frá pappírsbænum Moss í Noregi, eða öllu heldur: þeir eru skrifaðir þar. 14. maí 2011, fyrir nákvæmlega fimm árum. Mér leiddist svo óskaplega í þeirri heimsókn minni til Noregs (ég var á einhvers konar bókmenntahátíð, mjög illa skipulagðri) að ég hlaut að setjast niður til að „pára“ eitthvað út í loftið, eins og ónefndur ísl. rithöfundur myndi orða það. Og mér sýnist á þessum Moss-textum mínum að helsta upplifunin í Moss (fyrir utan hinn svakalega fnyk sem barst frá pappírsverksmiðjunni og lagðist yfir miðbæinn) hafi verið í gegnum fjölmiðla. En nú má ég ekki vera að þessu lengur – ég þarf að hafa hraðan á, sbr. G. Benn; útlenska stórborgin bíður fyrir utan dyrnar; það má ekki láta áreitið fara til spillis. En hér eru „norsku“ textarnir (orðnir fimm ára gamlir):

PAVILJONGEN

 

Föstudagur, þrettándi maí. Sjálfsmorðsárás í Pakistan, minnst áttatíu látnir – ég sé það á sjónvarpsskjá á hóteli í Noregi. Þegar ég spyr í móttökunni hvar morgunverður sé framreiddur – hvort hann sé ekki örugglega innifalinn fyrir gesti bókmenntahátíðarinnar – fæ ég að vita að morgunverðurinn sé framreiddur í paviljongen. „Hvar er paviljongen?“ spyr ég. Í garðinum fyrir aftan hótelið, er mér sagt. En þegar ég kem út í garð og sé paviljongen – það fer ekkert á milli mála hvað starfsmaðurinn í móttökunni átti við með því orði – kveður við sprenging, og paviljongen er á sama augnabliki í ljósum logum. Minnst tuttugu látnir, jafnvel tuttugu og fimm. Aðallega ljóðskáld, flest mjög ung. Skipuleggjandi hátíðarinnar líka, og konan hans. Þegar ég sný aftur í móttökuna er kominn annar starfsmaður en var þar fyrir hálfri mínútu. „Lukkunnar pamfíll,“ segir hann við mig, og mér finnst sem snöggvast að hann brosi. En hvað á ég með að hafa skoðun á því – ég þekki þennan mann ekki. Ég kinka hins vegar til hans kolli og segist bara fá mér eitthvað úr minibarnum; minibarinn hljóti að vera öruggara umhverfi en paviljongen. „Alltaf léttur á því,“ segir þá starfsmaðurinn í móttökunni, eins og hann þekki mig.

Moss, Noregi, 14. maí 2011

 

 

VITNI

 

Búlgarskur maður sker höfuðið af konu í kínverskri matvöruverslun í Tenerife á Kanaríeyjum. Konan er bresk, og maðurinn hleypur með höfuðið út úr versluninni. Þetta gerðist í gær, þrettánda maí, þegar minnst áttatíu manns létust í sjálfsmorðsárás í Pakistan, en í mesta lagi tuttugu og fimm við morgunverðarborðið í Noregi. Samkvæmt fréttum í fjölmiðlum voru vitni að atburðinum í Tenerife; vitni í merkingunni manneskja sem með berum augum (hugsanlega þó með sólgleraugu) horfði á mann skera höfuðið af konu í kínverskri matvöruverslun og hlaupa með það út á götu. Sannleikans vitni.

Moss, Noregi, 14. maí 2011