2. maí 2016

FRAMANDI LÖND

 

Í hótelherbergi í framandi löndum

er spegill fyrir ofan skrifborðið,

til að sá sem sest við borðið

geti horft á sjálfan sig

 

á meðan hann skrifar. En þessi spegill

er ekki spegill í hefðbundnum skilningi,

eins og mér sýndist hann vera

þegar ég kom inn í herbergið,

 

heldur einhvers konar myndverk:

kringlóttur flötur á stærð við höfuð

sem heldur að það sé

mun stærra en það er; hann er hvítur

 

með ljósgulum strokum

eftir pensil

sem ekki eru vel greinanlegar

fyrr en maður kemur nær

 

og rýnir í flötinn. Sem myndverk

er þetta ekki mjög spennandi.

Það verður að segjast eins og er.

En alveg nothæft sem spegill.