23. maí 2016

Neyðarútgangur. Ewa Lipska. Bókaforlagið Dimma hefur gefið út ljóðaúrval pólska skáldsins Ewu Lipsku á íslensku. Olga Holownia sá um útgáfuna, þýddi flest ljóðin og skrifaði eftirmála. Aðrir þýðendur eru Áslaug Agnarsdóttir, Bragi Ólafsson, Magnús Sigurðsson og Óskar Árni Óskarsson. Það hefur verið sérlega gaman að taka þátt í þessu verkefni undir stjórn Olgu, og ég finn mjög sterkt, nú þegar þessi fallega bók er komin út, hversu dýrmætt er að hafa hin einstöku ljóð Ewu svona samankomin. Ekkert okkar þýðendanna, fyrir utan Olgu, er læst á pólsku, en við höfum þýtt ljóðin úr ensku og spænsku, og eitthvað aðeins úr skandinavískum málum; og Olga hefur síðan borið þær þýðingar saman við frumtextann, og leiðrétt og lagað; og við síðan lesið yfir þýðingar Olgu á íslensku. Fleira fólk hefur komið að verkinu; Hildur Finnsdóttir hefur horft yfir öxl Olgu frá upphafi, og útgefandinn sjálfur, Aðalsteinn Ásberg, lesið yfir og unnið með okkur þýðendunum; og fleira fólk sem getið er um í fínum eftirmála Olgu. En ég ætla ekki að segja meira um þetta – ég hvet bara fólk til að kynna sér bókina. Ég stenst þó ekki þá freistingu að láta einar af mínum eftirlætislínum úr bókinni fylgja með; þær koma úr ljóðinu Enginn, og eru þýddar af Olgu:

 

Tómu herbergi

var komið fyrir í myrkri

íbúðarhússins.