1. júní 2016

Það gerðist næstum því í morgun að ég næði að taka ákvörðun varðandi óbirtar spurningar blaðakonunnar um daginn (sem ég ætla ekki að gera til geðs að þessu sinni að nefna á nafn; hún vakti mig nefnilega eldsnemma í morgun – fyrir mistök – hún hafði ætlað sér að hringja í aðra manneskju); en svo mundi ég eftir að hafa ákveðið að minnast á þá staðreynd (sem mér finnst einmitt í augnablikinu vera óskaplega „mikil staðreynd“, einkum ef hafður er í huga árafjöldinn sem liðinn er frá því að uppspretta staðreyndarinnar varð til) að útgáfufyrirtækið Smekkleysa mun fagna 30 ára afmæli eftir viku. Þann 8. júní nk. „Staðreyndin“ vekur upp í huganum alls kyns hrif og kenndir, ef mér leyfist að orða það svo. En ég verð að bíða aðeins með að gera mér þetta að „fréttaefni“; ég hef nefnilega öðrum hnöppum að hneppa í augnablikinu (enn og aftur) – ég hef bara ekki tíma. Enda er líka vika þangað til að Smekkleysa verður 30. Það er nægur tími. (Við hittumst fyrir viku, við eigendur fyrirtækisins, og það var tekin endanleg ákvörðun um að „prenta“ stuttermaskyrtur til að selja ferðamönnum í Smekkleysubúðinni í sumar. Ferðamenn kaupa nefnilega ekkert annað en boli – og hugsanlega lundalíkneski og lundabangsa. Þeir koma inn í Smekkleysubúðina við Laugaveg, og dást að því hversu frábært sé að svona lítil og sæt plötubúð skuli þrífast við aðalverslunargötuna í bænum; en þeir kaupa engar plötur eða geisladiska. Bara boli. Þeir fá tónlistina á netinu. Og þess vegna er þetta fín hugmynd að „prenta“ handa þeim boli. Hingað til hafa þeir bara getað keypt einhverja aðra boli en Smekkleysuboli; en frá og með næstu dögum munu þeir geta keypt sér Smekkleysuboli. Bolirnir verða í mismunandi litum, með nafni Smekkleysu á íslensku og ensku, held ég, og með nafni borgarinnar á bakhliðinni, til að ferðamennirnir geti „sannað“ fyrir vinum sínum og vandamönnum þegar þeir snúa aftur heim að þeir hafi verið í Reykjavík, og komið við í lítilli plötubúð.)