11. júní 2016

Óbeina lýsingin heldur áfram. Að vísu eru leikir dagsins ekki byrjaðir; þeir voru það að minnsta kosti ekki þegar ég kveikti á sjónvarpstækinu klukkan hálfníu í morgun. Ég hef ekki hugmynd hverjir spila í dag, fyrir utan leikinn í kvöld, sem er milli Englendinga og Rússa. En ég hef tekið eftir einu – svo ég stökkvi úr einu í annað – og það er þetta: Þegar fótboltamennirnir eru í viðtölum, þá virðast þeir hafa tilhneigingu til að horfa ekki í augu viðmælandans, eða spyrjandans, heldur út um víðan völl, ef svo má að orði komast. Og líklega er það nokkuð heppilega orðað hjá mér, því það má alveg ímynda sér að á meðan los fútbolistas tala við fjölmiðlafólkið, þá séu þeir að fylgjast með stöðunni í kringum sig; alltaf á varðbergi; stöðugt með hugann við að á hverju augnabliki geti verið von á bolta úr einhverri áttinni. Mér finnst þetta frekar áberandi. Þeir (fótboltamennirnir) horfa kannski í augu spyrjandans þegar spurningin kemur; en svo fara þeir að skima eitthvað annað; og í lok svarsins hafa þeir jafnvel snúið sér alveg við, og þurfa því að fara aftur í upprunalega stöðu þegar næsta spurning kemur. Ég verð ekki svo mikið var við þetta þegar stjórnmálamenn eða rithöfundar koma í viðtöl. En þá er ég kannski með hugann við eitthvað annað. Þegar ég hlusta – eða horfi öllu heldur – á viðtölin við fótboltamennina, þá er ég bara að hugsa um það, ekkert annað. Ég tók líka eftir öðru, þegar ég fylgdist með útsendingunni frá EM-stofunni í Gamla bíói í gærkvöldi: það rigndi ofan í sófann á svölunum. Eflaust er þetta sófi sem þolir vel bleytu; en ég fór bara að velta því fyrir mér hvort hann nái að þorna fyrir næstu útsendingu, sem væntanlega er einhvern tíma í dag. Því sófinn hlýtur að vera þarna til þess að einhver setjist í hann. Og varla getur það verið freistandi að setjast í blautan sófa. (Ég áskil mér rétt til að vera með aukafærslu í dag. Ekki það að ég þurfi að biðja um leyfi, en samt.)