12. júní 2016

Á 34. mínútu í leik Svisslendinga og Albana í EM í gær gerðist svolítið einkennilegt; nokkuð sem ég hef sjálfur ekki séð gerast áður í fótboltaleik, en sem á fótboltamáli kallast – eða hlýtur að kallast – að skoruð séu draugamörk. Staðan á 34. mínútu var eitt núll fyrir Svisslendinga. Og ekkert sérstakt var að gerast í leiknum; ekkert sem benti til þess að staðan væri að breytast. En þá breyttist staðan. Í litla rammanum efst á skjánum, þar sem markatalan er sýnd, bættist skyndilega við eitt mark, Svisslendingum í vil. (Auðvitað er óþarfi að taka fram að það hafi gerst skyndilega, því allar breytingar á markatölu í fótboltaleik gerast „skyndilega“, eða „allt í einu“.) Mér þótti þessi breyting á markatölu heldur skrítin, og átti vitaskuld von á því að mennirnir sem lýstu leiknum myndu gera sínar athugasemdir við þetta, eða að minnsta kosti nefna að Svisslendingar væru svona óvænt komnir með tveggja marka forskot (þegar ekkert gaf til kynna að seinna markið hefði verið skorað). En í því sem ég hugsaði þetta, þá bættist við þriðja markið, aftur Svisslendingum í vil. Staðan var orðin 3 – 0. Var ég eini áhorfandinn sem tók eftir þessu? Hvers vegna minntust sjónvarpsmennirnir ekkert á þetta? Og það sem einkennilegast var: Svisslendingar voru hvorki að fagna mörkunum (tveimur mörkum á sömu mínútunni), né Albanir að syrgja orðinn hlut. Leikurinn hélt bara áfram. Enginn fagnaði; enginn varð súr. En þá urðu aftur breytingar á markatölunni í litla rammanum. Mörkin gengu til baka. Staðan breyttist úr 3 – 0 í 1 – 0, eins og hún hafði verið fyrir um það bil einni mínútu. Og boltinn hélt áfram að ganga á milli manna – en hvorki inn í markið né aftur út úr því, eins og hin síbreytilega markatala gaf til kynna að hefði gerst. Mínútu síðar var aftur á móti fyrirliði albanska liðsins rekinn út af vellinum (með rauðu spjaldi; fyrst gulu og síðan rauðu) fyrir að hafa stöðvað boltann með höndunum. Svo hélt leikurinn áfram, eins og lífið heldur áfram (án manneskjunnar sem var rekin út af). Ég geri mér auðvitað enga grein fyrir því hversu margir aðrir sjónvarpsáhorfendur tóku eftir þessu með markatöluna; en hvort sem ég var sá eini (sem mér finnst reyndar afar ólíklegt), þá hef ég að minnsta kosti séð hvernig draugamörk verða til – og hverfa síðan aftur (eins og draugar). En núna að ástandinu í Marseille, hinni gömlu hafnarborg í Suður-Frakklandi. Öll þessi slagsmál. Alvarleg meiðsl. Hvað á maður að segja um það? Ég veit ekkert hvað ég á að segja um það. Myndi þetta ekki teljast fremur eðlilegt ástand, þar sem mætast enskir og rússneskir fótboltaáhugamenn? Ég vona samt að enginn deyi. En það var eitthvað sætt við að sjá Rússana jafna leikinn í gær. Ég held hvorki með Rússum né Englendingum; en það hlakkaði eitthvað í mér yfir að Englendingum tækist ekki það sem þeim hefur ekki tekist í sirka hálfa öld: að vinna leik númer eitt í riðlakeppni í EM. Og núna bíður maður spenntur eftir að Wales leggi England að velli. Sá leikur er næsti leikur þeirra liða. Liðið frá Wales var mjög skemmtilegt í gær. Mér fannst þeir bæði vera flinkir og duglegir. Þeir tveir eiginleikar haldast nú ekki oft í hendur. Ef ég héldi ekki með Spánverjum eða Þjóðverjum (eða jafnvel Íslendingum – maður tekur þá ákvörðun ekki fyrr en á þriðjudag), þá héldi ég með Wales. Það verður einhver að gera það.