15. júní 2016 (aukafærsla)

Ekki átti ég nú von á því að aukafærslan kæmi svona fljótt á þessum sólríka degi. En líklega er hún svo gott sem óumflýjanleg. Því mér hefur verið bent á (ekki það að einhver sé að fylgjast svona vel með Kafla á dag; það var ég sjálfur sem benti mér á þetta) að ég fór með rangt mál í gær þegar ég nefndi að íslenska landsliðið í fótbolta hefði átt að fara út á völlinn gegn Portúgölunum í jakkafötunum frá Herrahúsinu við Laugaveg. Fötin eru víst ekki úr Herrahúsinu. Þau koma frá Herragarðinum. Eflaust hugsar einhver sem svo að varla geti verið mikill munur á Herrahúsinu og Herragarðinum (eða Herrafataverslun Birgis, ef út í það er farið), en munurinn er heilmikill. Hann er eins og heitt og kalt. Í hverju hann liggur þori ég ekki að hafa mjög sterka skoðun á, en munurinn er til staðar; hann liggur væntanlega í „húsinu“ og „garðinum“ (og „fataversluninni“, ef við höldum „Birgi“ enn inni í jöfnunni).