16. júní 2016

Hálfleikur í viðureign nágrannanna. Ég lýsti því yfir um daginn að ég hefði ekki mjög yfirgripsmikla þekkingu á fótbolta. En það er ekki rétt. Ekki lengur. Ég hef hana núna. Áður en England og Wales gengu inn á völlinn, rétt fyrir klukkan eitt að íslenskum tíma, sá ég – það var svo augljóst – að markmaður Englendingar, Joe Hart, væri eitthvað frekar eitthvað. Ég held auðvitað með Wales (það var komið fram áður), en burtséð frá því, þá kom það svo heldur betur í ljós í þessum fyrri hálfleik liðanna að markvörður Englendinga væri eitthvað væri frekar eitthvað, ef svo má að orði komast aftur. Ekki vegna þess að hann varði ekki hina frábæru aukaspyrnu frá Gareth Bale, heldur vegna þess að hann var búinn að ákveða með sjálfum sér fyrir leikinn að hann væri bestur; að Englendingar þyrftu ekki að hafa fyrir þessu. En Englendingar eru sjaldnast bestir, eða í hópi þeirra bestu. Ekki í fótbolta allavega. Nú verð ég að viðurkenna að ég er sjálfur farinn að líta mig þeim augum að ég hugsi ekki um neitt annað en fótbolta þessa dagana. En það er bara ekki rétt. Ég mun aldrei fást til að viðurkenna það. Ekki fyrr en keppninni lýkur. (En auðvitað á ég ekki að vera að skrifa eitthvað svona núna. Englendingar eiga kannski eftir að skora. Wales-liðinu verður refsað fyrir þessi skrif mín. En ég held með Wales. Á eftir Íslendingum og Spánverjum. Og Þýskalandi – býst ég við. Í þessum skrifuðu orðum voru Englendingar að jafna … Andskotinn.)