17. júní 2016

Líklega hef ég fengið of stóran skammt af fótbolta um miðjan daginn í gær, eða verið svona spældur yfir úrslitunum í leik Englands og Wales, því ég kaus að gera annað (en að horfa) þegar Úkraína og Norður-Írland höfðu viðureign kl. fjögur. Ég hef því ekki hugmynd um hvernig sá leikur var. Ég var að vinna. Reyndar virkar þessi keppni mjög vel hvað varðar „dagvinnu“ manns; maður neyðist til að skipuleggja sig út í ystu æsar; og ég er ekki frá því að sú skipulagning skili sér beint inn í textann; mér fannst ég rissa upp nokkrar mjög svo einbeittar senur og samtöl í gær, og ekki bara í gær, heldur síðustu daga. Staða pundsins græðir því á þessari evrópsku fótboltakeppni … En þá að leiknum í dag, Ítalíu/Svíþjóð. Ég veit ekki af hverju það er, en ég er aldrei spenntur fyrir Svíþjóð sem fótboltaþjóð. Á einhvern svipaðan hátt og með England og Írland. Og þessi leikur Svía og Ítalíu var ekki skemmtilegur. Ég fór að gera eitthvað annað. Ég geri mér grein fyrir að í dag er þjóðhátíðardagur Íslendinga; en þegar ég opnaði fyrir sjónvarpið fyrir hádegi og sá forsætisráðherra Íslands, framsóknarmanninn, tala eitthvað um Ísland, þá missti ég allan áhuga á Íslandi í bili. Sá áhugi kemur aftur á morgun, geri ég ráð fyrir, þegar Ísland spilar við Ungverja. En Ítalía? Ég held að Chiellini (sem ég held að sé varnarmaður) hljóti að hafa áhugaverðasta andlitið í þessari EM-keppni. Það verður líka að velta slíku fyrir sér. Það kemur eitthvað mjög gamalt andrúmsloft inn á grasvöllinn með þessum Chiellini. Þetta er eiginlega andlit sem hefur ekkert með fótbolta að gera (þó ég viti að fótbolti er gömul íþrótt). Ég ætla ekki að hrapa að neinni harðsoðinni niðurstöðu með það úr hvaða átt – eða heimi – þetta andlit kemur; ég verð að fá að velta því aðeins lengur fyrir mér. Ég ætlaði raunar í dag aðeins að minnast á „vinkonu“ mína Rósu Sæberg, þá sem hefur undanfarið komið inn í líf mitt á fremur óvenjulegan hátt – hún hafði nefnilega óvænt samband við mig í gær; það var í gærkvöldi (á meðan ég var ekki að horfa á leik Þýskalands og Póllands; ég gafst nefnilega upp á honum, sem var skrítið, því ég hef verið aðdáandi þýska liðsins); en erindi Rósu má segja að hafi verið of flókið til að ég geti gert því almennileg skil hér, í svona tiltölulega stuttri færslu. Og ég verð víst að bíða með það um stund. (Get þó sagt að ég fékk að heyra um óánægju hennar með að ég væri ekki búinn að birta niðurlag viðtalsins sem hún átti við mig í tölvupóstinum um daginn.) En núna í annað – ég veit ég er að fara fullmikið úr einu í annað. Mér datt nefnilega eitt í hug varðandi fótboltann. Síðustu leikir – sýnist mér að minnsta kosti – hafa verið fremur dauflegir. Of mörg mörk eru drepin í fæðingu af varnarmönnum. Mín hugmynd er því sú að liðin ættu að vinna að því markvisst að gera varnarleikinn lakari en hann er. Að leggja alla áhersluna á sóknarleikinn. Mjög margt hefur verið gert í sögu íþróttarinnar til að hressa upp á leikinn, gera hann fjörugri og hraðari, og meira fyrir augað og andann; en þetta með að vörnin skuli vera jafn góð og hún yfirleitt er (að vísu klikkaði hún svolítið hjá sænska liðinu undir lok leiksins við Ítali) er eitthvað sem má taka til athugunar. Hér verð ég reyndar að gera hlé. Fékk óvænta heimsókn (sem núna er búin), og (væntanlega) spennandi leikur að hefjast. Ég hafði ætlað að tala um „hinn ákveðna greini íslensku leiklýsendanna“, en það verður að bíða þangað til næst. (Í tilefni dagsins birti ég hina ljóðrænu mynd af fráfarandi forseta Íslands og Ratzinger páfa. Hún er reyndar alltaf við hæfi – það þarf ekki 17. júní til.)

Unknown-1