24. júní 2016

N. Farage og B. Johnson virka ekki á mann sem sérlega aðlaðandi stjórnmálamenn; það er einhver keimur af Dónaldi í þeim. Og allt í einu er D. Cameron orðinn góði gæinn, hann sem hefur hið óhugnanlega yfirbragð ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins. Ég spái því að ákvörðun 52 prósentanna á Bretlandseyjum sé upphafið að náinni samvinnu og vináttu Vladimirs (Pútín) og Borisar (Johnson), þegar Boris verður orðinn forsætisráðherra. Ég hef áhyggjur af þessu, ég verð að segja það. Og ég hef líka áhyggjur af því að þetta kunni að hafa ófyrirséð áhrif á bókina sem ég er að skrifa. Hún heitir nefnilega Staða pundsins. En núna verða Íslendingar að sýna Englendingum á mánudaginn hvar Davíð keypti ölið. Og þá er aldrei að vita nema að ég taki bjórinn minn út úr frystinum, og leyfi dósinni að springa yfir veggi eldhússins, ef hún endilega vill það.