25. júní 2016

Hm. Hvað á maður að segja? Ég hef ekki Morgunblaðið undir höndum, og heldur ekki DV (ef það kemur ennþá út), en inn um lúguna í morgun (um það leyti sem ég var að opna frystihólfið í ísskápnum til að athuga hvort bjórdósin frá því um daginn væri í lagi – sem hún virtist vera) duttu tvö dagblöð á mottuna í forstofunni, gott ef ekki á sama augnablikinu (eða mómentinu, eins og nú er oftar sagt): Fréttatíminn og Fréttablaðið. Þannig að ef ég kærði mig um gæti ég lagst yfir þessi blöð, gert svolítinn samanburð á þeim, vitnað í greinar og viðtöl (og bókadóma, sem reyndar eru ekki margir, að minnsta kosti ekki miðað við hversu margar bækur koma út á Íslandi), og svo framvegis – jafnvel … ja, jafnvel hvað? – en ég ætla að láta mér nægja að benda á tvær heilsíður sem í þessum blöðum er að finna. Þær eru báðar frá forsetaframbjóðendum. Í Fréttablaðinu, á bls. 5, er auglýsing frá framboði Andra Snæs. Og í Fréttatímanum, á bls. 3, er Guðni Th. með auglýsingu. Ég ætla ekki að hafa einhverjar sterkar skoðanir á þessum tveimur síðum (ekki sem ég viðra, að minnsta kosti), en ég vil bara benda á þær. Þær eru á bls. 5 í Fréttatímanum, og bls. 3 í Fréttablaðinu. Framundan í dag eru síðan fótboltaleikir á EM, lestur góðra bóka, og svolítil endurskrif texta sem var skrifaður í gær; en svo fer maður niður í Das Rathaus við Tjörnina og kýs nýjan forseta. Inni í klefanum mun maður fara í huganum yfir heilsíðurnar tvær, og jafnvel velta fyrir sér ólíkum bakgrunninum á ljósmyndunum: á annarri þeirra er Jökulsárlón (ég sé allavega ekki betur), og á hinni er dökkgrár bakgrunnur (að minnsta kosti prentast hann þannig í því eintaki blaðsins sem ég fékk inn um lúguna). Nú, svo er aldrei að vita nema maður fari á kosningavöku í Iðnó (ekki Iðnú – Iðnú er í Brautarholti).