27. júní 2016

Nú man ég ekki hvort ég hafði lofað því „opinberlega“ á þessari síðu minni að segja aldrei frá draumum mínum (þeim sem verða til á nóttunni); en ég hafði svo sannarlega lofað mér sjálfum því. Á sama hátt og draumar eiga sjaldnast erindi í skáldskap, finnst mér engin ástæða til að vera að flagga þeim hér. En núna er kominn tími til að svíkja þetta loforð mitt. Til að réttlæta þau svik verð ég láta þær upplýsingar fylgja að það voru niðurstöður Brexit-atkvæðagreiðslunnar sem voru kveikjan að draumnum sem ég er um það bil að fara að segja frá. Of langt mál væri að útskýra það orsakasamhengi. En draumurinn var svona (í mjög stuttu máli): Íslendingar unnu EM í fótbolta 2016, án þess að skora mark í allri keppninni. Þeir fengu á sig eitt mark, sem Englendingar skoruðu í hálfleik með því að senda einn liðsmann sinn út á völlinn með boltann á meðan liðin voru (eða áttu að vera) í hvíld; og það var því enginn markmaður í marki Íslendinga (því marki sem Íslendingar áttu að verja í seinni hálfleiknum), og engin vörn fyrir framan markið. Þetta mark var að vonum dæmt af. Nokkrum leikjum síðar – sem ég man ekki úr draumnum hvernig röðuðust upp; hverjir voru andstæðingar Íslendinga – var staða okkar manna (Gylfa og Arons og þeirra) sú að við höfðum ekki skorað eitt einasta mark, en heldur ekki fengið neitt á okkur (fyrir utan mark Englendinga í hálfleiknum, það sem var dæmt af). Og við unnum mótið. Það fylgdi þó ekki með í draumnum hvort sigur með slíkri markatölu hefði unnist áður í sögu keppninnar. Mér þótti samt leiðinlegt að dreyma ekki framhaldið, sem hefði þá væntanlega falið í sér móttöku íslensku þjóðarinnar þegar liðið sneri aftur með bikarinn. En svo tekur raunveruleikinn við í dag (eins og hann gerði fyrir Guðna Th. í gær). Fyrst mætir raunveruleikinn í formi Spánverja og Ítala; síðan með Englandi og Íslandi. Munu Englendingar láta draum minn rætast með því að senda Wayne Rooney út á völlinn í hálfleik – með boltann á undan sér – til að þruma honum í varnarlaust mark Íslendinga? Allt í einu rifjast upp fyrir mér smásögutitill Delmores Schwartz, In dreams begin responsibilities.