30. júní 2016

 

„Hver er staðan?“ rifjaði ég upp um daginn að Ásmundur Jónsson, Ási (Ási í Gramminu, eins og sumir þekkja hann; Ási í Smekkleysu, eins og aðrir þekkja hann), hefði hrópað upp yfir sig þegar kassarnir utan um Googooplex-plötuumslögin urðu viðskila við rúgbrauðsbílinn sem hljómsveitin Purrkur Pillnikk ók á töluverðum hraða í gegnum grænar sveitir Englands á neðanverðum níunda áratug síðustu aldar. (Ég hefði mögulega getað troðið inn fleiri nafnorðum inn í þessa setningu, en ákvað að gera það ekki.) Ég rifja upp þessa upprifjun mína núna vegna þess að mér líður hálfkjánalega með titilinn á skáldsögunni sem ég er að skrifa. Stöðu pundsins. Staða pundsins er samt titill sem ég hef lengi gengið með í höfðinu; hann hefur fylgt mér – eða minnisbókum mínum – í mörg, mörg ár. Ég er með öðrum orðum ekki að láta mér detta hann í hug núna (í júní 2016), þegar pundið tekur hina kröppu dýfu í kjölfar Exit-vitleysu Breta. Brexit kemur heldur ekki fyrir í bókinni. Ekki einu sinni Bregret, eins og nú er farið að nefna í kjölfar atkvæðagreiðslunnar alræmdu. Söngkonan og rithöfundurinn Brix Smith kemur ekki heldur fyrir í bókinni. (Sú manneskja er reyndar fædd í Ameríku. Og til glöggvunar þeim sem ekki þekkja nafnið, þá var hún einu sinni eiginkona Mark E. Smith, og meðlimur hljómsveitarinnar The Fall.) Brix var ekki einu sinni orðinn meðlimur The Fall þegar Purrkur Pillnikk var upphitunarhljómsveit þeirra á túr um England, og það vill svo til að skáldsagan sem ég nefndi, Staða pundsins, gerist um það bil fimm árum áður en túrinn með The Fall var farinn. Og þá voru reyndar nokkur ár þangað til Brix gekk til liðs við The Fall. (Hvert er ég eiginlega kominn? Hvað er ég að tala um?) Brix Smith (sem nú heitir Brix Smith Start) gaf út ævisögu sína um daginn. Hún er þriðji meðlimur The Fall sem gefur út ævisögu sína. Fyrst var það Mark E. Smith sjálfur fyrir nokkrum árum; svo Steve Hanley, bassaleikarinn fíni; hann gaf út sína ævisögu fyrir um það bil tveimur árum; og núna um daginn var að koma bókin eftir Brix. En talandi um ævisögur (poppara og fyrrv. poppara), þá er mín bók sem er í smíðum, Staða pundsins, ekki ævisaga. Að minnsta kosti ekki ævisaga mín. En samt er nánast ekkert í henni sem ekki byggir óbeint á ævi höfundar. Ef eitthvað gerðist fyrir mig, eða mína fjölskyldu, á árunum 1976 til 1977, þá gerast þeir hlutir fyrir persónurnar í bókinni, sem allar, vel að merkja, heita öðrum nöfnum en ég og mín skyldmenni og vinir – og eru aðrar persónur (flestar, að minnsta kosti). Ég er ekki frá því að hægt sé að kalla svona skrif „skáævisögu“. Persónulega er ég að taka stóra áhættu með því að tala um bók sem er í smíðum; það gæti orðið til þess að mér finnist ég ekki þurfa að skrifa hana. En persónuleg áhætta fylgir hverri bók hvort sem er, ekki bara fyrir höfundinn, heldur lesandann líka. Hann, sá síðarnefndi, gæti þekkt sig í henni, undir einhverju allt öðru nafni en hann gengur undir í „raunverulegu lífi“. Meira að segja ég gæti farið að þekkja mig of vel í eigin bók. En hvers vegna „staða pundsins“? Fyrst tengdi ég þann titil hugmynd sem mig langaði til að vinna úr, eins konar „verslunarbréfasögu“, út frá kynnum mínum af því fyrirbæri í Verzlunarskóla Íslands; en síðar tók hugmyndin á sig aðrar myndir; og þótt verslunarbréf komi fyrir í bókinni núna, þá er „núverandi gerð“ sögunnar afar ólík þeirri upprunalegu. Fyrir fjörutíu árum var pundið rúmlega þrjúhundruðkall íslenskar; í dag er það ekki nema 165 krónur. Ég hef ákveðið að leggja þónokkra merkingu í það, ég sem legg aldrei neina merkingu í neitt. Og svo er ekkert annað í stöðunni en að bíða eftir leik Pólverja og Portúgala. Ég held með Pólverjum, jafnvel þótt Ronaldo hafi átt eitthvert póetískasta atriði keppninnar í ár – reyndar utan vallar – þegar hann henti hljóðnema fjölmiðlamannsins í ána.