6. júní 2016

Það er alltaf verið að hringja í mig frá ADHD-samtökunum. Núna síðast fyrir nokkrum dögum. Það var verið að biðja mig um fjárstyrk. Reyndar hefur ekkert verið hringt frá því þeir hringdu um daginn, þannig að ef til vill er ósanngjarnt af mér að „það sé alltaf verið að hringja“. En þá eru það bara einhverjir aðrir sem hringja. Síðast var það eitthvert fyrirtæki sem mér heyrðist að væri kallað Vís. Það var ekki Vísa, ég hefði áttað mig á því. En maðurinn sem hringdi (reyndar hljómaði hann svo ungur að réttara væri að tala um „dreng“), hann spurði hvort þeir mættu ekki kíkja í heimsókn til mín og kynna fyrir mér eitthvað sem væri mun betra en það sem ég hefði nú þegar … Um leið og ég rifja þetta upp, þá sé ég hálfpartinn eftir að hafa afþakkað „tilboðið“ jafnfljótt og ég gerði; ég hefði átt að leyfa „drengnum“ að tala aðeins lengur – þá hefði ég kannski komist að því hvað það var sem hann vildi bjóða mér. En það er of seint núna. Ég er ekki með þannig númerabirti eða -minni í símanum að ég geti flett upp númerum aftur í tímann. „Aftur í símann“. En talandi um heimsóknir, þá fékk ég heimsókn í morgun. Góður vinur minn rak inn nefið. (Og í kjölfar nefsins kom allur líkami hans inn, ef svo má að orði komast.) Hann staldraði ekki lengi við (hann gerir það aldrei á virkum dögum; hann veit að ég þarf að vinna – hann þarf sömuleiðis að vinna); en við náðum samt að fara yfir hin og þessi mál, og minnast á einhverjar bækur, jafnvel bíómyndir. (Við þögðum alveg um forsetakosningarnar. Og líka um Evrópukeppnina í fótbolta.) Það sem mér er þó minnisstæðast úr samtali okkar er orðið menja. Við vorum að virða fyrir okkur hús við Tjarnargötuna, þar sem verið er að undirbúa opnun safns í nafni Júlíönu Sveinsdóttur – húsið blasir við út um gluggann hjá mér – og við töluðum um litinn sem verið er að mála húsið með; það er fallegur grænn litur sem fellur vel inn í umhverfið, þótt ég hafi ekki hugmynd um hvað liturinn er kallaður (annað en grænn). Almennt er ég ekki hrifinn af grænum lit, en þessi græni finnst mér fallegur – enda kann ég ekki nafnið á honum. „En liturinn sem þeir settu á fyrst, áður en þeir byrjuðu að mála með þessum græna – það er menja,“ sagði vinur minn. Og um leið og hann sagði orðið menja fór ég í huganum aftur um sirka 35 ár, í gamla Daníelsslipp við Mýrargötu, þar sem ég var sumarstarfsmaður eitt eða tvö sumur. Þar var ég alltaf að bera menju á skipabotnana. Menja er ryðvörn. En sú menja, sem notuð var í Daníelsslipp fyrir 35 árum, var öðruvísi á litinn en menjan sem þeir notuðu á húsið við Tjarnargötuna núna um daginn. Kannski er ástæðan fyrir því sú að húsinu er ekki ætlað að vera undir yfirborði sjávar. En núna (þegar ég skrifa þetta) koma fleiri minningar upp í hugann frá Daníelsslipp. Ég finn lyktina af tólgnum sem við þurftum að bera á teinana. Það var svakaleg lykt. Mér verður bumbult þegar ég hugsa um hana. Og ég man líka eftir að um svipað leyti og ég vann í Daníelsslipp – gott ef það var ekki bara sama sumarið (sem kannski voru tvö) – keypti ég plötuna Homecoming – Live at The Village Vanguard með saxófónleikaranum Dexter Gordon. Og á þeirri plötu var tónsmíð eftir sjálfan Dexter Gordon sem kallaðist Fenja. Hvernig Dexter kynnti lagið á upptökunni er mér mjög minnisstætt; hann hafði svo djúpa rödd. Fenja er held ég örugglega nafnið á eiginkonu Dexters. Auðvitað ætti ég að nota tækifærið núna og leiða talið að jazzútgáfufyrirtækinu Enja, en ég ætla að standast þá freistingu. Ég læt þetta gott heita í bili. Fyrir utan að fletta upp á youtube og athuga hvort þar sé ekki Fenja með Dexter Gordon. Það er ekki. En þarna er upptaka frá því í fyrra, með kvintett einhvers Daniels Matthews; og þeir eru að spila Fenja eftir Dexter Gordon, til heiðurs höfundinum. Þetta er ekki eins flott og á Homecoming-plötunni, en samt: