7. júní 2016

Sögusvið Fjarverunnar: Skammidalur
(Skammidalur)

Þegar ég horfði á leik Íslendinga og Liechtenstein í gærkvöldi varð ég var við að orðið færsla var talsvert notað til að lýsa hreyfingum og stöðu leikmanna á vellinum. Ef ég skildi – eða heyrði – það rétt. Ég hef reyndar heyrt þetta orð notað áður í fótboltamáli, en það vakti sérstaka athygli mína núna vegna þess að ég hef sjálfur notað orðið í tengslum við eigin skrif, og þá aðallega skáldsöguna Fjarveran. Sú bók beinlínis fjallar um „færsluna“ á persónum hennar – og auðvitað fjarveru þeirra á sviðinu. Auðvitað er það galið (eins og ég hef ábyggilega talað um hér áður) að höfundur sé að lýsa því um hvað bókin hans er – það er ekki í hans verkahring – en mér fannst á einhvern hátt fremur saklaust að orða það með sjálfum mér (og frá og með núna í texta aðgengilegum öðrum) að skáldsagan Fjarveran, sem kom út árið 2012, fjalli öðru fremur um „færsluna“ á persónunum; um það hvernig þær færast úr einum stað í annan, og hvaða áhrif það hefur á hinar persónurnar að sú persóna sem lýst er hverju sinni skuli færa sig á þennan hátt eða hinn. Einhver sagði einhvern tíma um einhvern að hann hefði „þægilega fjarveru“. Ég stóðst þá freistingu að nota þau orð í bókinni Fjarveran; og eftir á að hyggja hefðu þau ekki átt heima þar. En núna er Evrópukeppnin í fótbolta framundan. Og ég hef ekki enn tekið ákvörðun um hvort ég fylgist með henni í sjónvarpinu eða ekki; hvort ég fylgist með færslu leikmanna í þeirri keppni. Einu sinni var ég beðinn um að spjalla um fótbolta í sjónvarpi – það var Þorsteinn Joð sem bað mig (mig af öllum mönnum; ég veit ekki af hverju; jú, það var vegna þess að ég var að skrifa niður orð og orðatiltæki í lýsingum á keppninni, og einhverra hluta vegna frétti Þorsteinn af því) – og þá, þegar ég mætti í þáttinn til hans, bjó ég óvart til hugtakið ambient-fótbolti (að gefnu tilefni reyndar, því í einhverjum leiknum í yfirstandandi keppni var leikinn fótbolti sem leit einmitt þannig út: ambient-fólbolti). Núna dettur mér í hug að gaman væri að sjá fótboltaleik þar sem engin færsla leikmanna ætti sér stað; að þeir væru í raun allir – allir 22 mennirnir á vellinum – fjarverandi. Ég gæti vel hugsað mér að horfa á svoleiðis leik.