8. júní 2016

Hálfur dagurinn liðinn, og ég er rétt að muna eftir því núna, klukkan 14:45, að útgáfufélagið Smekkleysa sm.ehf. er þrjátíu ára í dag. Til hamingju, Smekkleysa. Ég mundi eftir þessu fyrir viku, en framan af sjálfum afmælisdeginum var það gleymt. (Ég var að hugsa annað.) En hvað á maður að segja? Hér er fyrsta útgáfa Smekkleysu, póstkortið með myndinni eftir Frikka, í tilefni Höfðafundarins sögulega:

Unknown

Útgáfa númer tvö var fyrsta ljóðabókin mín, Dragsúgur. (Hana er að finna á Náttborði lemúrsins, meðal annarra „fyrstu útgáfa“, þótt ekki sé mynd af framhlið bókarinnar):

 

http://lemurinn.is/2015/01/11/islenzkar-ljodabaekur-fyrsta-utgafa/

 

Mér er mjög minnisstætt hvernig þessi bók varð til, það er að segja hluturinn sjálfur. (Og ekki síður er mér minnisstætt hvernig textinn í henni varð til, þótt ég muni auðvitað fæst af því, nema auðvitað textann sjálfan, sem ég man reyndar heldur ekki, væri ég beðinn um að fara með hann blaðlaust.) Við Einar Melax sátum kvöld eftir kvöld, í íbúð sem ég bjó í á þeim tíma, við Laugaveg 139, og undir stjórn Einars föndruðum við einhver 200 til 250 eintök; límdum þau saman og pressuðum yfir nótt undir sjónvarpstækinu mínu. Það er hægt að verða mjög nostalgískur við að rifja upp eitthvað svona. Þriðja útgáfa Smekkleysu var síðan fyrsta plata Sykurmolanna, einn mol´á mann, með lögunum Ammæli og Köttur, fjármögnuð (að minnsta kosti að hluta til) með ágóðanum af póstkortinu …