9. júní 2016

Móðir mín hringdi í mig áðan. (Hljómar eins og upphaf franskrar skáldsögu.) Hún er á Tenerife, og verður þar, ásamt systur sinni og bróður, þangað til á laugardag. Það var kominn hópur af tjöllum á hótelið. Mér fannst eins og hún væri að hringja í mig til að segja mér frá því. Allavega var friðurinn úti á hótelinu, sagði hún mér. Ég heyrði vel í tjöllunum gegnum símann. Mamma spurði hvort ég heyrði ekki í þeim – og hvort ég gerði! Hún lýsti þessum mönnum fyrir mér; þeir væru með mikla vöðva – og maga. Og borðið hjá þeim væri þakið bjórdósum og flöskum. Mamma sat á svölunum hjá sér á meðan hún talaði við mig í símann; þær systurnar voru á fjórðu hæð; og tjallarnir, sem sátu við sundlaugina, voru beint fyrir neðan þær. Og það rifjaðist upp fyrir mér að í síðustu ferð mömmu til Tenerife, eða þarsíðustu, gerðist það sama: tjallarnir mættu á svæðið, og gáttir Helvítis opnuðust. Svo byrjar Evrópukeppnin á morgun. Er England annars í Evrópu?