20. júlí 2016

Nú veit ég hvernig það er að hverfa (how to disappear og allt það). Ég hef ekki sett inn færslu í svo og svo marga daga (treysti mér ekki til að telja þá, en það eru dagarnir á milli 7. og 20. júlí) í því prógrammi sem ég dirfðist að kalla því krefjandi nafni Kafli á dag. Mér er skapi næst að leggja einhverja þunga merkingu í þetta. En svo hef ég auðvitað afsökun fyrir fjarveru minni, því undirtitill Kafla á dag er nefnilega eða sjaldnar. (Vægi, eða gildi, undirtitla er stórlega vanmetið.) Ég geri þetta að umtalsefni hér, því þættinum (Kafla á dag) hefur borist bréf. Í bréfinu var einmitt gert að umtalsefni að lesefni Kafla á dag væri orðið gamalt; ég var spurður hvort ég hefði farið í sumarfrí – hafði ég kannski verið að „njóta lífsins“? Um sumarfríið ætla ég ekki að fjölyrða (eða dæma hvort er rétt; hvenær er maður í sumarfríi og hvenær ekki?), en að ég hafi verið að „njóta lífsins“ er hugarburður þess sem lét sér detta það í hug. Og enn og aftur er ástæða til að vitna í manninn sem liggur hérna rétt hjá í Hólavallagarði, í svo til beinni línu frá skrifstofu minni, í um það bil fimmtíu metra fjarlægð: „Að njóta lífsins? Viðbjóður.“ (J. S. Kjarval) En hvar á ég að byrja? Svo miklar upplýsingar liggja á borði mínu að ég hef ekki hugmynd um hvar skal byrja. Sé það svo að einhver lesandi Kafla á dag notist ekki við aðrar upplýsingaveitur en Kafla á dag, þá get ég frætt þann hinn sama á því að Portúgalir unnu Evrópukeppnina í fótbolta. Og að eiginkona Donalds Trump, Melania Trump, er blökkumaður. Ég ætla ekki að tjá mig mikið um ódæðið í Nice, og heldur ekki um viðskiptafrelsi á Íslandi (undir stjórn núverandi stjórnarflokka), en ég ætla að hafa smá áhyggjur af „hreinsunum“ í Tyrklandi. En aftur að fótboltaúrslitum. Fyrir tíu árum tók ég það loforð af sjálfum mér að horfa ekki aftur á HM eða EM í fótbolta, eftir að Zidane skallaði niður Ítalann. Ég þóttist vilja grípa það tækifæri til að segja mig frá frekara áhorfi á stóru fótboltamótin í heiminum. En ég er ekki viljasterkari maður en svo að ég hélt þetta loforð ekki út nema í eina eða tvær keppnir. Í síðastliðinni keppni, þeirri sem var að ljúka, lét ég mér detta í hug að lofa mér sjálfum einhverju svipuðu þegar Ronaldo kastaði míkrófóninum í ána; en einhverra hluta vegna gerðist það ekki. Kannski hefði Ronaldo þurft að kasta fjölmiðlamanninum líka í ána til að ég tæki af skarið. En nú má ég ekki vera að þessu. Vegna bakmeiðsla (eða bakmeiðslna?) hef ég takmarkað vinnuþrek; og ég vil ekki sóa því í upplýsingamiðlun – þeir sem hafa ekki fengið neinar upplýsingar frá 10. júlí síðastliðnum verða bara að bíta í það súra epli að leita eitthvað annað. Í bili, að minnsta kosti. (En ég fann að það var kominn tími á myndina af forsetanum og páfanum aftur; nú eru ekki nema 11 dagar þangað til forsetinn hættir að vera forseti.)