24. júlí 2016 (aukafærsla)

Eins gott að ég var ekki byrjaður að hlusta á Scott Walker – ég komst nefnilega að því, þegar ég kíkti í Infernó-sögu Gyrðis (í Milli trjánna), að það sem ég sagði um drykkina í sögunni – að það væri ekki minnst á drykki – er alls ekki rétt. Það er í rauninni eins vitlaust og það getur orðið. Þegar sögumaðurinn tekur eftir álúta manninum í matsalnum (áður en rennur upp fyrir honum hver þetta er), sér hann að maðurinn er með bjór í glasi. Hann var með bjór fyrir framan sig, og starði ofan í glasið einsog hann sæi ekkert annað, eða glasið væri skuggsjá þar sem mætti sjá heilan heim. Það hefði verið leiðinlegt að flaska á þessu. Auðvitað flaskaði ég á því, en nú hef ég leiðrétt það. Ég veit að það er óskapleg klisja – eiginlega alveg vonlaus klisja – en stundum finnst mér eins og allt gangi út á að leiðrétta það sem maður hefur gert. (Ég á þó ekki von á því að ég geri aukafærslu við aukafærsluna. Enda hvað ætti ég að kalla hana?)