27. júlí 2016

Snæbjörn Arngrímsson, sem var útgefandi minn í mörg ár, þangað til 2006, segir á bloggsíðunni sinni (hann er líka með svona bloggsíðu eins og ég; mér var bent á hana) að honum finnist ég eigi að skrifa meira frá hjartanu. Tilefni þeirra orða er lestur hans á síðustu skáldsögu minni, Sögumanni. Í þeirri bók – og nú er ég um það bil að fara að gerast mjög einlægur, gott ef ekki hjartnæmur, allt að því væminn – bókstaflega ríf ég úr mér hjartað og leyfi lesendum að skoða. (En veit auðvitað um leið að hver lesandi skoðar það með sínu nefi; ég get ekki stjórnað því.) Hvað á Snæbjörn annars við með því að þessi eða hinn höfundur skrifi ekki nógu mikið frá hjartanu? Ég held ég verði að komast að þeirri niðurstöðu að hann sé að kalla á þá tegund bókmenntatexta sem gerir um það bil 70 til 80% útgefinna skáldverka að svokölluðum kellingabókum (bókmenntagrein sem Snæbirni virðist þó ekki vera neitt sérstaklega vel við, ef marka má önnur skrif á bloggsíðunni hans). En það er erfitt að dæma mjög nákvæmlega um eitthvað svona. Snæbjörn hefur sína sýn; ég mína. Samanlagt núllast sýn okkar út. Og ég þykist vita að þeim sem vafra um í bloggheimum sé orðið frekar ljóst að hjörtu okkar Snæbjarnar slá ekki alveg í takt (en þykist líka vita að það séu ekkert mjög margir sem eru að velta því sérstaklega fyrir sér hvort þau geri það). Hjörtu okkar (mannanna!) voru reyndar hætt að slá í sama takti á miðjum fyrsta áratug þessarar aldar; ég veit ekki af hverju Snæbjörn er að rifja það upp núna. (Vá hvað þetta er orðin beisk færsla. Ég held hún hljóti að koma frá einhverju öðru líffæri en hjartanu. Og ég held reyndar að ég láti henni lokið. Líklega er þó óhjákvæmilegt annað en að láta eitthvert myndefni fylgja henni, þó ekki væri nema til að létta aðeins „eftirbragðið“. Fyrir valinu verður mynd af tveimur mönnum sem – eftir myndinni að dæma – eru með hjörtu sem slá í takt. Engin svona mynd náðist af okkur Snæbirni. Ég er reyndar ekki viss um að það sé til mynd af okkur saman; samstarf okkar var ekki nógu langt til að það myndi gerast; það varði ekki nema í sirka 13 ár.)