13. ágúst 2016

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá lesendum þessarar heimasíðu að höfundur hefur aftur og aftur gert að umtalsefni bókina Fjarveran. Það er engu líkara en að hann sé að reyna að koma því inn hjá lesendum að þeir eigi að kynna sér þá bók, hafi þeir ekki þegar gert það. Engu líkara? Hann er að því. Hann, sem er ég. Ég fékk nefnilega bréf um daginn frá útgefanda mínum, Forlaginu. Nefnilega? Ég fékk einfaldlega bréf. Í því stóð að fyrir dyrum lægi að farga eitt þúsund eintökum af áðurnefndri bók, Fjarverunni; það þurfi að rýma til á lagernum; það sé tekið að þrengja að. Í bréfinu er mér sagt að förgunin verði framkvæmd á „réttan hátt“, að endurskoðandi fyrirtækisins muni votta að svo verði. Og ég treysti því alveg, jafnvel þótt ég viti ekki hver endurskoðandinn er. Bókin var prentuð í 2000 eintökum – var mér sagt. Áður en hún var prentuð stakk ég upp á við útgefandann (eða starfsmann útgefanda) að bókin yrði prentuð í sem fæstum eintökum, og nefndi töluna eitt þúsund sem dæmi, en mér var þá sagt að hlutfallslega borgaði sig að hafa eintökin tvö þúsund. Nú hefur komið í ljós að það borgaði sig ekki. (Rétt í þessu datt mér í hug að ef til vill ætti ég að starfa hjá Forlaginu við eitthvað annað en að skrifa bækur.) En það er ekki verið að farga öllum óseldum eintökum af Fjarverunni. Nei, alls ekki. Eins og segir í bréfinu, þá verður haldið eftir að lágmarki sjö ára sölu. En hvað gerist eftir það? Hverju svarar útgefandinn að sjö (eða átta, kannski níu) árum liðnum, þegar starfsmaður bókabúðarinnar hringir í hann og spyr hvort hann geti sent sér fleiri eintök af Fjarverunni eftir Braga Ólafsson; viðskiptavinir séu að spyrja um þá bók, ekki bara einn, heldur fleiri – mun fleiri. „Því miður, það er bara ekki meira til af bókinni.“ „Er hún uppseld?“ spyr bókabúðarstarfsmaðurinn. „Já. Eða … Jú, hún er uppseld. Það er bara ekki meira til af henni.“ „Og verður ekki prentuð aftur?“ „Prentuð aftur? Fjarveran? Þú ert að tala um Fjarveruna eftir Braga Ólafsson?“ „Já. Það var hérna eldri kona sem kom í búðina hjá okkur áðan og vildi kaupa tvö eintök.“ „Tvö?“ spyr starfsmaður útgefanda. „Hún vildi fá tvö, já,“ svarar starfsmaðurinn í bókabúðinni. „Það var reyndar spurt um sjö eintök af henni í síðustu viku; það var einhver lesklúbbur á Akureyri sem hafði hugsað sér að taka bókina fyrir. Hún gerist nefnilega að hluta til á Akureyri.“ (Nú þarf ég reyndar að hlaupa; ég þarf að fara í skírnarveislu. Ég velti þessu með förgunina kannski meira fyrir mér á næstunni – hér á síðunni – en fyrst ég nefndi Akureyri, þá ætla ég að skreyta þessa færslu með mynd þaðan; ég notaði hana á sínum tíma til að kynna bókina – Fjarveruna, það er að segja. Ég held að ég hafi tekið hana sjálfur.)

Sögusvið Fjarverunnar: Akureyri