23. september 2016

Prógramm gærkvöldsins í MH gekk fyrir sig eins og ætlað hafði verið. Ég las textana um Botnskálann, og aðrir höfundar lásu sína texta; það var þéttsetinn Norðurkjallari, og Yrsa Þöll Gylfadóttir (sem las upp ansi skemmtilegan texta úr óbirtri skáldsögu) sagði mér að Þorgerður Ingólfsdóttir væri í húsinu (in da house – sem sagt í gærkvöldi), eftir að ég hafði eitthvað minnst á gamla minningu úr Norðurkjallara, minningu sem hafði með Þorgerði að gera, og Paul Zukovsky og Purrk Pillnikk – fyrstu æfingu Purrks Pillnikk, sem einmitt átti sér stað í Norðurkjallara (þegar Þorgerður og Paul voru að vinna að öðruvísi músík á efri hæðinni, í Hátíðasalnum – segi kannski frá þessu seinna). En sem sagt: Hamraskáldaupplesturinn var fínn. Svo fórum við, nokkrir höfundarnir, á Kringlukrána rétt fyrir lokun, og fengum okkur hressingu. Ég hlakka mjög til að lesa Látra-Björgu eftir Hermann Stefánsson. Sú bók á að koma út fyrir jólin. En nú að öðru. Ég hef gerst gestabloggari hjá dóttur minni Hrafnhildi. Hún heldur úti þessum fína vef, Ráðlögðum jazzskammti:

 

https://radlagdurjazzskammtur.wordpress.com

 

Þegar ég sendi henni þetta áðan – það var í hádeginu hér í Mordor, Reykjavík – var morgunn hjá henni í Cambridge, Massachusetts. Og þetta fór strax á vefinn. Enda má ekki bíða með eitthvað svona; Arthur Blythe þolir enga bið.