4. september 2016 (aukafærsla)

Móðir mín hringdi í mig í dag. Bara rétt áðan. „Hvað heldurðu, sonur sæll,“ sagði hún (hún orðaði það reyndar ekki þannig): „það var vitnað í ljóð eftir þig í útvarpsmessunni áðan!“ „Hvaða ljóð?“ spurði ég. „Það var eitthvað um haustið,“ sagði hún, „eitthvað um ilmandi skólatösku. Í hvaða bók er þetta?“ Það fór um mig óttablandin sæla, og um leið skammaðist ég mín (búinn að vera vondur við forsætisráðherra, eða „forsætisráðherra“, í færslu morgunsins, og ábyggilega búinn að hugsa eitthvað ljótt um kirkjuna í landinu líka frá því ég vaknaði í morgun); og ég svaraði mömmu: „Þetta ljóð er í bókinni Ansjósur. Það heitir Haustið.“ Ég spurði hana hvort þetta væri framar- eða aftarlega í messunni; við ræddum síðan um eitthvað annað, alveg ótengt haustinu eða ljóðlistinni; mig minnir (þótt ekki sé nema korter liðið frá símtalinu) að við höfum rætt svolítið um Katrínu Jakobsdóttur, Birgittu Jónsdóttur, og klæðnað kvenna á alþingi (jú, ég man það alveg núna: við töluðum um þetta – mamma var ekki alveg dús við hvernig þær Katrín og Birgitta koma fyrir; henni fannst Birgitta stundum eins og draugur; og ég get alveg tekið undir það – mér finnst það samt svolítið flott þegar fólki tekst að vekja upp þá hugmynd með klæðaburði sínum að það sé framliðið). En núna, þegar klukkan er að verða hálftvö, er ég búinn að hlusta á prestinn, Þórhildi Ólafs, fara með ljóðið mitt, og strax farinn að endurskoða hug minn gagnvart kristinni trú og kirkjumálum landsins. Moi orðinn hluti af predikun á sunnudegi í Hafnarfjarðarkirkju!? En moi er afar stoltur og ánægður. Með því að klikka mig í gegnum klukkutíma langa messuna heyrði ég að vitnað var einnig í ljóð eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og Snorra Hjartarson, gott ef ekki Matthías Jóhannesen líka, en Haustið mitt brestur á í kringum 38. mínútuna.

HAUSTIÐ

 

Haustið, hvílíkur léttir!

 

Árstíðin sem ekur í veg fyrir skóginn

sú sem leggur þér skæri í hönd

og pappír.

 

Sú sem ég þekki best

skólataskan sem ilmar

af bókum um allt sem er liðið

af leðri og gljáandi epli

og kveðju að heiman.

 

(Á sömu opnu í bókinni, vinstra megin, er ljóð sem ég hlýt á sínum tíma að hafa passað vel upp á að lenti í opnu með Haustinu.)

 

AÐ LOKNU SUMRI

 

Væri skap hans mælt í rúmmetrum eða öðrum kassalaga einingum, mæltist það á borð við meðalstóra hlöðu,

 

risastóra hlöðu að loknu sumri, og ég er þar á vappi í kring með eldspýtnastokkinn minn.