20. október 2016

Sjö ára gamalt „dagbókarbrot“ í tilefni dagsins. Ég var að hugsa um að skrifa um nafna minn Gunnar, og nýjustu tíðindin af honum (Matís og allt það), en svo hugsaði ég: Æ, nei. Ekki eitthvað svoleiðis, það er búið að segja frá því í fréttamiðlum veraldarvefsins (þó væntanlega ekki á Mbl, mér finnst það ólíklegt; ekki heldur í gamla Tímanum, ef hann er enn til). En hér er „dagbókarbrotið“:

 

FÍN MÚSÍK

 

„Þetta er fín músík,“ segir sú litla, þegar ekki nema tvær eða þrjár mínútur eru liðnar af spilunartíma þrettán og hálfrar mínútu langs lags með Eric Dolphy, Ted Curson, Charles Mingus og Dannie Richmond. Ég passaði mig á að hafa tónlistina ekki mjög hátt stillta í hljómflutningstækjunum – við erum stödd í stofunni; við sitjum við sama borð – en ég leyfi mér að hækka ofurlítið eftir að sú litla hefur gefið mér leyfi til þess, ef svo má að orði komast.

 

Sú litla er þriggja ára. Ég á nokkur ár í fimmtugt.