7. október 2016

Nú vill svo til að ég er staddur í húsi með fólki frá Texas – og verð næstu dagana – fólki sem samkvæmt grun, og nokkuð haldbærri vissu, ætlar sér að kjósa forsetaefni Repúblikanaflokksins í næsta mánuði. Þetta eru roskin hjón; ég hef hitt þau áður. Í gær sagði konan mér frá tónleikum sem hún fór á með Elvis Presley þegar Elvis var um tvítugt, og hún líklega 13 eða 14. Þeir hafi verið haldnir á Cotton Bowl-leikvanginum í Dallas, þar sem konan býr ásamt manni sínum. Ég fletti þessu upp á netinu áðan, og fann út að Elvis var 21 árs þegar hann spilaði á Cotton Bowl; og hún, konan, nýorðin 15 ára; hún átti afmæli daginn fyrir tónleikana, sem voru haldnir 11. október 1956. Hér er ítarefnið um þessa fjölmennu tónleika:

 

http://www.elvis-history-blog.com/elvis-dallas-56.html

 

Á sunnudaginn næsta, 9. október, verða kappræður Dónalds og Hillaríar (Hillarís?) nr. 2 í sjónvarpinu hér í States. Ég sé fyrir mér að þetta verði eitthvað sem ég mun rifja upp eftir 10 eða 20 ár (ef almættið leyfir): kvöldstundin sem ég átti með fólkinu sem ætlaði sér að kjósa Dónald, fyrir framan sjónvarpið þar sem Dónald var að kappræða við Hillarí (Hillaríu); þegar helst mátti ekki ræða þessi mál í þeim hópi sem saman var kominn fyrir framan sjónvarpið, vegna þess að málið var allt of viðkvæmt: ef rætt væri um það sem fram færi á sjónvarpsskjánum myndi allt fara í háaloft, eða (sem mig grunar að sé líklegra) að samræðurnar þögnuðu um leið og þær hæfust. Hvort sem gerist, þá verður stemmning. Ég mun kannski rjúfa þögnina (eða yfirgnæfa hávaðann í heiftarlegu rifrildinu) með einhverju um íslenska pólitík; um Sigmund Davíð og nafna minn Gunnar. Og helli Bud Light yfir pappírinn og orðið. (Það er svo langt síðan heyrst hefur í Elvis Presley, að ég ætla að bæta úr því ekki seinna en núna. Elvis Presley: It´s Impossible.)