11. nóvember 2016

Ein af sterkustu minningum mínum frá útlöndum er sú að hafa séð Leonard Cohen á sama hóteli og ég dvaldi á (ásamt hinum Sykurmolunum) í New York árið 1988. Hótelið var Mayflower við Central Park West. Hann sat við gluggann á kaffiteríunni eða í lobbíinu, ég man ekki alveg hvort var; hann var í svargráum jakkafötum, og minnir mig svartri skyrtu eða rúllukragapeysu. Mjög smartur og elegant. Mér finnst reyndar svolítið skrítið að þessi minning sé jafn sterk og hún er, því ég hef aldrei haft mikil kynni af Leonard Cohen sem tónlistarmanni, hann hefur aldrei höfðað sérstaklega til mín. En þetta var í fyrstu heimsókn minni til Ameríku, og myndin af Cohen, þar sem hann sat þarna í sínum fallegu jakkafötum, hefur eflaust greipst í huga minn vegna þess að mér fannst að svona ættu menn að klæða sig. Og mér finnst það enn. Í næstu eða þarnæstu heimsókn minni til New York eignaðist ég reyndar jakkaföt ekki ósvipuð þeim sem Leonard Cohen klæddist þarna á Mayflower-hótelinu. Ég keypti þau samt ekki. Ég fékk þau frá starfsmanni á hótelinu sem við dvöldum á í þeirri ferð, Morgans-hótelinu á Madison Avenue. Starfsmennirnir voru allir klæddir sams konar fötum; mjög elegant, svargráum jakkafötum, sem eins og hótelið, voru afar fallega hönnuð, án þess þó að manni dytti í hug að nota orðið hönnun yfir þau. Einhvern veginn komst ég að því að það stæði til að endurnýja fatakost starfsmanna hótelsins – hvernig í ósköpunum komst ég að því? – og það varð úr að ég skipti við einn þeirra á glænýjum Sykurmolajakka (ég veit það hljómar fáránlega: það var nýbúið að framleiða einhverja voðalega popparajakka á okkur popparana, með nafni hljómsveitarinnar og eflaust einhverjum fleiri upplýsingum saumuðum í efnið, ég man það ekki alveg); ég skipti sem sagt á þeim jakka (sem starfsmanninum fannst ógurlega fínn og spennandi) og búningnum hans, svargráu Morgans-fötunum. Þetta eru einhver bestu viðskipti sem ég hef átt. Og líklega bestu föt sem ég hef átt sömuleiðis. Ég notaði þau mjög lengi, í nokkur ár, eða þar til buxurnar urðu eftir – þær gleymdust – í einhverri rútunni sem keyrði okkur milli borga í Evrópu. Jakkinn nýttist þó eftir það. En hvað með hótelið? Morgans er ennþá til, þótt eitthvað hafi útlitið breyst. Sömu sögu er ekki að segja um Mayflower-hótelið; það er horfið. Og núna er Leonard Cohen allur. Þegar ég fletti upp á netinu Leonard Cohen og Mayflower, þá birtist mynd af honum sitjandi við glugga á hótelinu, mynd frá 2001. Hann hefur sem sagt bókað sig aftur inn á hótelið við Central Park. En þótt ég sé ekki aðdáandi Leonards Cohen númer eitt (mig grunar reyndar að aðalástæða þess sé sú að ég á mjög erfitt með hversu framarlega rödd hans er alltaf höfð í hljóðblönduninni – ég veit: ekki mjög sannfærandi ástæða), þá finnst mér mjög leiðinlegt að hann sé dáinn. Það er sorglegt þegar svona sterk element hverfa úr heiminum. Og mér verður hugsað til annars Kanadamanns, Rufusar Wainwright. Rufus á barn með dóttur Cohens, Lorca Cohen. Og þeir voru góðir vinir, Leonard og Rufus. En áður en ég hætti, þá er hérna smá meira slúður: mér skilst að forræði dóttur Lorca og Rufusar, Viva Katherine Wainwright Cohen, sé bæði hjá móðurinni og Rufus og eiginmanni hans. Slúður lokast. Nú er bara spurning hvort maður dustar rykið af tónlistarmanninum og semur lag sem heitir Mayflower Hotel (því enn hef ég ekki reynslu af því að gista á Chelsea Hotel). Lagið gæti líka heitið Morgans Hotel. Það myndi fjalla um jakka. Popparajakka og jakkaföt.

Leonard Cohen, the influential singer-songwriter, at the Mayflower Hotel by Central Park in New York 2001. Photograph: Suzanne DeChillo/The New York Times