23. nóvember 2016

Enn hef ég ekki ákveðið hvað skal gera við þessa heimasíðu (sem má víst ekki kalla heimasíðu, er mér sagt; mér skilst að það eigi að kalla þetta vef – sem mér finnst sjálfum frekar óþægilegt orð); ég veit sem sagt ekki hvað ég á að gera við þennan vef (eða heimasíðu) þegar hann (eða hún) verður eins árs á morgun. Ég er samt kominn með hugmynd, að minnsta kosti að yfirskrift. (Yfirskriftin skiptir alltaf mestu máli; hún stjórnar því sem raðast undir.) Fyrir stuttu var ég eitthvað að ræða við stjórnanda annarrar „heimasíðu“, Ráðlags jazzskammts, og við urðum sammála um það að tenórsaxófónleikarinn Charlie Rouse, sá sem spilaði mjög lengi með kvartett Thelonious Monk (allavega á flestum Columbia-plötunum), hefði ef til vill ekki verið rétti saxófónleikarinn fyrir Monk, þótt hann hljómi oft mjög smart. Það hefði verið gaman að fá fleiri upptökur með Monk og Coltrane saman. Allt of lítið til af þeim. (Eins og einhver skrifaði í kommentin á youtube: Eins og Beethoven og Mozart saman …) Hér eru þessir frábæru Carnegie Hall-tónleikar sem lágu óútgefnir í næstum heila öld:

En sá saxófónleikari sem mér finnst einna mest gaman að heyra með Monk er Johnny Griffin. Þeir spiluðu eitthvað saman með Art Blakey og Sendiboðum hans, en hér eru þeir á Five Spot-klúbbnum árið 1958 – þetta eru svakalega fínar upptökur: